Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46445
Við setningu lax- og silungsveiðilaga nr. 61/2006, var ekki með skýrum hætti skilgreint hver réttarstaða veiðifélaga væri, samkvæmt lögunum. Tilefni þótti til að gera breytingar á lögunum eftir að dómur Hæstaréttar féll í Hrd. 13. mars 2014 (676/2013) þar sem Hæstiréttur taldi að ekki væri fyrir hendi skýr lagaregla handa veiðifélögum til að ráðstafa eignum veiðifélags án þess að allir eigendur gæfu samþykki sitt. Með lögum nr. 50/2015 um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006 með síðari breytingum (meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga) bættist við nýr stafliður við ákvæði 1. mgr. 37. gr. laganna. Þegar lögin tóku gildi var veiðifélögum veitt heimild í e-lið 1.mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 til þess að taka ákvörðun um nýtingu á eignum félagsins til arðbærrar nýtingar ef meirihluti eigenda veitti samþykki sitt fyrir slíku. Með gildistöku ákvæðisins má gera ráð fyrir að bætt hafi verið úr skorti á lagareglu um ráðstöfun og meðferð eigna veiðifélaga. Ákvæði e- liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 fellur þó heldur illa að 6. mgr. 37. gr. laganna um að eignir veiðifélags tilheyri veiðiréttarhöfum. Vaknar þá sú spurning, hver séu réttaráhrif e-liðar 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Til að svara þeirri spurningu er fyrst farið yfir þær reglur sem gilda um ákvarðanatöku innan sérstakrar sameignar almennt. Þá verður gerð grein fyrir skipan mála innan veiðifélaga og reglum sem gilda um nýtingu og ráðstöfun eigna veiðifélags sem skyldubundins aðildarfélags. Því næst verður vikið að þeim reglum sem gilda innan veiðifélaga um hagnýtingu og ráðstöfun eigna sem félagið annast og hvenær þörf sé á samþykki allra sameigenda. Að lokum er svo gerð grein fyrir því hvernig Hæstiréttur skýrir ákvæði e-liðar 1. mgr. 37. gr. laganna og hvort sú niðurstaða hafi litast af því að veiðifélög séu lögbundin skylduaðildarfélög.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA- ritgerð lokadrög.pdf | 457,49 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Lokaverkefni yfirlýsing.pdf | 175,64 kB | Lokaður | Yfirlýsing |