Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46489
Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Svo hljóðar 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem mælir fyrir um félagafrelsi manna. Í 2. mgr. 74. gr. má finna systurreglu 1. mgr. en þar segir „Engan má skylda til aðildar að félagi.“ Þessi meginregla hefur verið kölluð reglan um neikvætt félagafrelsi. Af þessari meginreglu leiðir að menn eiga rétt á því að standa utan félaga og verða almennt ekki neyddir til aðildar að félögum. Frá þessu má þó finna undantekningu í 2. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að með lögum megi kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði er lögð sú skylda á veiðiréttarhafa að eiga aðild að veiðifélögum. Þessi skylda manna er dæmi um undantekningu á 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrsti vísir af reglum um veiðifélög má rekja allt til laga nr. 5/1886 um friðun á laxi, en frá þeim tíma hafa reglur og form veiðifélaga breyst umtalsvert. Aðild að veiðifélögum var valkvæð allt til ársins 1970 þegar ný lög um lax- og silungsveiði nr. 76/1970 tóku gildi, en þá var ákveðið að mönnum yrði skylt að vera aðilar að veiðifélögum. Eins og búast mátti við hafa risið upp álitamál í gegnum tíðina um útfærslu þessarar skylduaðildar og þá sérstaklega hversu langt sé hægt að ganga á rétt manna er eiga aðild að slíkum félögum. Efni þessarar ritgerðar mun gera grein fyrir álitamálum um skylduaðild manna að veiðifélögum og þeim takmörkunum sem slík skylduaðild þarf að sæta vegna stjórnarskrárverndaðra mannréttinda aðila þeirra.
Í öðrum kafla verður vikið að almennri umfjöllun um félagafrelsið, með áherslu á hið neikvæða félagafrelsi. Þar verður farið yfir þær reglur sem hafa mótast hérlendis í þessum efnum, ásamt þeirri þróun sem átt hefur sér stað í Evrópu. Þá verður í þriðja kafla fjallað um þróun löggjafar um lax- og silungsveiði og þau nýmæli sem fylgdu setningu laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í fjórða kafla, sem er meginkafli rits þessa, verður sjónum beint að fyrirkomulagi veiðifélaga eins og það er í dag. Verður þar í fyrstu rakin saga veiðifélaga hérlendis og skipan þeirra. Þar á eftir verður skylduaðild að veiðifélögum skoðuð sérstaklega og rakin verða þau sjónarmið sem löggjafinn hefur lagt fram er réttlæta þá skylduaðild. Í lok kaflans verður farið yfir verkefni veiðifélaga, bæði lögákveðin verkefni þeirra ásamt þeim verkefnum sem ekki verða leidd beint af lögum. Verða þar leidd í ljós takmörk á þeirri réttindaskerðingu sem óneitanlega fylgir skylduaðild á veiðifélögum. Loks verður farið yfir helstu niðurstöður umfjöllunarinnar í kafla fimm.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Njörður Bruun - BA-ritgerð .pdf | 288,11 kB | Lokaður til...15.04.2027 | Heildartexti | ||
NB scan 2-2.pdf | 193,05 kB | Lokaður | Yfirlýsing |