is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46641

Titill: 
  • Þetta er ekki grín. Kímni íslenskra þjóðsagna: Rússnesk þýðing á 50 þjóðsögum úr safni Jóns Árnasonar
Námsstig: 
  • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • MA ritgerðin er þýðing á 50 íslenskum þjóðsögum úr safni Jóns Árnasonar, fyrstu útgáfu, sem kom út á árunum 1862-1864 í Leipzig. Þýddar sögur eru úr flestum sagnaflokkum sem koma fram í þessari útgáfu: álfasögur og sögur um huldufólk, tröllasögur, sögur um Guð og kölska, útilegumannasögur, galdramannasögur, draugasögur og náttúrusögur. Þýðingunni fylgir ítarleg greinagerð þar sem er rætt í fyrsta lagi um einkennileg atriði íslenskra þjóðsagna frá sögulegu, fagurfræðilegu og menningarlegu sjónarhorni. Um þetta verður rætt í fyrstu þrem köflunum. Svo verður rætt um stíl þjóðsagna sem er mismunandi frá einni sögu til annarrar vegna þess að þær eru frásagnir fjölda heimildamanna og voru skráðar af fleiri aðilum. Stíllinn hlýtur að vera eldri og tungumálið flóknara í sumum sögum samanborið við aðrar. Hlutverk þýðandans felst í því að ákveða hvort eigi að varðveita þessi ólíku stílbrögð eða hvort eigi að halda samræmi í stílnum. Þessi spurning tengist þeirri spurningu hvort nútímaleg þýðing á þjóðsögum sé að nokkru leyti endurritun þeirra, enda verður ekki einungis þýtt á milli mála heldur líka á milli tímabila. Þýðandinn þarf því að velta fyrir sér hvort hann megi aðlaga málfræði, setningagerð og jafnvel orðaforða frumtextans, sem kemur frá munnlegri hefð en var skráður á miðri 19. öld (en er sennilega mun eldri en það), fyrir nútímalesendur á markmálinu. Því næst er fjallað um þýðingaferlið og farið ofan í saumana á helstu áskorunum og erfiðleikum við þýðingu þessara sagna. Þessar áskoranir mætti gróflega flokka í málfræðilega erfiðleika sem tengjast snúnu máli íslenskra þjóðsagna og fyrirbærafræðilega erfiðleika sem tengjast þjóðmenningu Íslands fyrri alda, þar sem mörg fyrirbæri og verur í sögunum eiga sér enga hliðstæðu í markmenningunni og markmálinu. Í þýðingunni sjálfri eru neðanmálsgreinar nýttar til að útskýra hin ýmsu fyrirbæri fyrir lesendum textans á markmálinu. Kímni er mikilvægur partur af fagurfræði íslenskra þjóðsagna. Þessari ritgerð er ekki ætlað að rannsaka þjóðsögur úr flokkum „kýmnisagna“ í safni Jóns Árnasonar heldur skoða sögur úr öðrum flokkum, þar sem kímni er ekki beinlínis í brennidepli, en þar sem þó er fjallað um ýmis áberandi, jafnvel hræðileg atvik á kíminn hátt. Í fimmta kafla ritgerðarinnar verður skoðað í hverju kímnin felst og hvernig á að þýða hana. Rætt er í fyrsta lagi um eðli íslensks húmors og hlutverk hans í þjóðmenningu og bókmenntum. Þá verða skoðaðar mismunandi aðferðir við þýðingu á húmor í bókmenntum og — einnig í gegnum þýðingu valinna þjóðsagna — skoðaðar leiðir til að endurskapa hann á markmálinu.
    Greint er frá aðalniðurstöðum rannsóknarinnar í sjötta kafla, þýðingin sjálf fylgir í sjöunda kafla, og að lokum birtist heimildaskrá.

Samþykkt: 
  • 29.4.2024
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/46641


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Screenshot 2024-04-29 at 10.31.21.pdf2,68 MBLokaðurYfirlýsingPDF
MA_Varvara_Lozenko_2024.pdf6,68 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna