Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46650
Bakgrunnur: Barnsfæðing hefur lítið breyst í áranna rás en tækni sem hægt er að nýta innan fæðingarþjónustunnar er í stöðugri þróun. Ytri ómskoðun er tækninýjung sem nota má til að meta framgang fæðingar. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á upplifun kvenna af mati með ytri ómskoðun miðað við innri þreifingu og engin slík rannsókn hefur verið gerð hérlendis. Tilgangur: Að skoða upplifun frumbyrja af mati á framgangi fæðingar með ytri ómskoðun um kvið og spöng miðað við innri þreifingu og að kanna viðhorf þeirra til þessara aðferða. Aðferð: Rannsóknin var eigindleg. Fimmtán frumbyrjur í sjálfkrafa fæðingu á Landspítala tóku þátt. Tveimur vikum eftir fæðingu voru tekin einstaklingsviðtöl við konurnar og þau greind með innihaldsgreiningu.
Niðurstöður: Upplifun og viðhorf kvennanna birtust í eftirfarandi þemum: 1) „Að vera upplýst og tilfinning um stjórn“ var aðalþemað og rauði þráðurinn gegnum öll viðtölin. 2) „Innri þreifing sársaukafull en nauðsynleg“ skiptist í a) fagmennska og nærgætni og b) virðing, traust og stjórn á aðstæðum. 3) „Ég tengi ómskoðunina bara við létti“ skiptist í a) sársaukalaus, áhugaverð og ánægjuleg skoðun og b) að sjá og skilja veitir öryggistilfinningu. 4) „Aðferðirnar bæta hvora aðra upp“. Það skiptist í a) munur á innri þreifingu og ytri ómskoðun, b) ef þú getur látið konunni líða aðeins betur og c) ég myndi velja ómskoðunina en nauðsynlegt að hafa innri þreifinguna líka. Ályktun: Konurnar höfðu mikla þörf fyrir upplýsingar um allt sem laut að fæðingunni. Að jafnaði fundu þær mikinn mun á innri þreifingu og ómskoðun þar sem þeim þótti ómskoðunin þægilegri og nákvæmari. Konurnar sáu samt ekki fyrir sér að innri þreifingin myndi alveg víkja fyrir mati á framgangi með ómskoðun heldur væri heppilegast ef hægt væri að nýta það besta sem hvor aðferð hefði upp á að bjóða.
Lykilorð: Fæðing, ómskoðun, innri þreifing, framgangsmat, upplifun, innihaldsgreining
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlýsing.Skemma.pdf | 78.57 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Hilda.29.04.24 leiðrétt.pdf | 6.53 MB | Lokaður til...01.06.2026 | Heildartexti |