Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/46698
Þessi rannsókn skoðar þá þætti sem stuðla að velgengni íslenskra kvikmynda á evrópskum kvikmyndamarkaði. Rannsóknin sameinar megindlegar og eigindlegar aðferðir með það að markmiði að varpa ljósi á þá þætti sem stuðla að velgengni íslenskra kvikmynda á erlendum mörkuðum.
Teknar voru til rannsóknar allar íslenskar kvikmyndir sem frumsýndar voru í kvikmyndahúsum á árunum 2000 til 2019. Megindleg greining leiðir í ljós að kvikmyndir sem náð hafa umtalsverðum árangri á evrópskum markaði hafa nær undantekningarlaust hlotið stuðning frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, eru í leikstjórn reynds leikstjóra og hafi verið framleiddar í samstarfi við erlenda framleiðendur. Eigindlegu viðtölin við íslenska kvikmyndagerðarmenn sem liggja einnig til grundvallar rannsókninni veita frekari innsýn í þær áskoranir sem íslenskir kvikmyndaframleiðendur standa frammi fyrir og þær hindranir og þau tækifæri sem kvikmyndagerð hér á landi stendur frammi fyrir til að ná árangri á erlendum mörkuðum. Rannsóknin leiðir í ljós að innan íslenska kvikmyndaiðnaðarins eru skýr skil á milli kvikmynda sem framleiddar eru sérstaklega fyrir innanlandsmarkað og kvikmynda sem ætlaðar eru til alþjóðlegrar dreifingar. Kvikmyndir sem höfða til íslenskra áhorfenda og/eða hljóta góðar viðtökur á meðal íslenskra kvikmyndahúsagesta hafa ekki endilega sömu eiginleika og myndir sem komast í alþjóðlega dreifingu. Árangur kvikmynda sem ætlaðar eru til alþjóðlegrar dreifingar byggist gjarnan á þátttöku á virtum kvikmyndahátíðum og jákvæðum viðtökum á þeim vettvangi, sem opnar þeim leið til dreifingar á almennan kvikmyndahúsamarkað. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að skilja mismunandi menningarsamhengi evrópska markaðarins, þar sem áhrif markaðssetningar og fleiri þátta geti verið ærið mismunandi eftir löndum.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa þýðingu fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn sem leitast við að ná árangri á alþjóðavettvangi, fagfólk í íslenskum kvikmyndaiðnaði og stefnumótunaraðila til að skilja og greina betur gangverk evrópsks kvikmyndaiðnaðar. Rannsóknin bendir til þess að kvikmyndagerðarmenn sem ætla kvikmyndum sínum að öðlast brautargengi á erlendum mörkuðum ættu að einbeita sér að því að framleiða hágæða kvikmyndir með alþjóðlegri skírskotun og að þeir ættu að leita að samframleiðslumöguleikum með reyndum samstarfsaðilum. Rannsóknin undirstrikar einnig mikilvægi þess að skilja ólíkt menningarlegt samhengi evrópska markaðarins og að sníða markaðs- og dreifingaraðferðir í samræmi við það.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Skemman_yfirlysing.Júlíus.pdf | 257.98 kB | Locked | Declaration of Access | ||
Fljúgum ekki ein. MA. 2024 - Júlíus Jóhannesson.pdf | 1.21 MB | Open | Complete Text | View/Open |