Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46764
Maðurinn stendur nú frami fyrir því sem kallað hefur verið umhverfisváin. Fram eru komnar vísindalegar sannanir um hversu alvarleg staðan er vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum og þar með að líkur séu á að illa fari ef ekki verði brugðist við af krafti. Enginn veit í dag hversu alvarlegar afleiðingar mannaldar verða en líkur eru á að umhverfi okkar breytist þó nokkuð með áframhaldandi loftslagsbreytingum, hækkun sjávar, frekari fækkun dýrategunda, áframhaldandi ruðningi skóglendis og almennri neyslumengun með miklum áhrifum á líf fjölda fólks. Í þessari ritgerð sem er lokaverkefni til BA-gráðu í mannfræði við Háskóla Íslands verður orsökin fyrir umhverfisógninni skoðuð og beint sjónum að því hver sé ástæða þess að ekki hefur verið gripið til nægjanlega ábyrgra aðgerða fyrr til að stemma stigu við slæmum áhrifum mannaldar. Einkum er beint sjónum að tilurð mannsins og því að maðurinn sem tegund virðist vera illa nestaður í að bregðast við, þar sem tilurð hans byggðist og byggist á að komast af í hörðum heimi þar sem það að hafa nægan forða var grundvallar atriði í lífsbaráttunni og nauðsyn til að tryggja sínum nægt atlæti til að einmitt sá hópur lifi af. Einnig er skoðað hvernig þeir sem marka mest spor sín í menninguna ná oft að beina almenningi á braut sem þeir marka og hvernig félagslegt taumhald heldur almenningi síðan á þeirri braut, sem tryggir áframhaldandi stuðning við þá menningu sem almenningur er vanur og er þá hindrun í að tekið sé til hendi gegn ríkjandi slæmum hugsunarhætti. Tekin eru dæmi um afleiðingar umhverfismengunar og áhrif loftslagsbreytinga á daglegt líf fólks ásamt félagslegum áhrifum breytinganna á samfélag þess. Einnig er hér rætt hvernig foringjar geta breytt áherslum innan menningar sinnar og eiga tiltölulega auðvelt með að marka nýjar brautir í samfélaginu. Að lokum er sett fram tillaga um það sem gæti líklega orðið til þess að snúið yrði við blaðinu og að farið yrði í fyrirbyggjandi aðgerðir sem myndu kannski duga til. Þar er bent á að stóraukið lýðræði og það að almenningur fái völd til að ráða framvindu mála gæti haft áhrif, einkum þar sem afleiðingar mannaldar munu blasa við þeim sem mun þá knýja á að farið yrði í afgerandi og nægjanlega markvissar aðgerðir gegn náttúruvánni.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð Jason Steinþórsson Eigi má sköpum renna 03 05 2024.pdf | 575.16 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
BA HÍ Jason S.pdf | 360.05 kB | Lokaður | Yfirlýsing |