is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46822

Titill: 
  • Efnahagsleg umsvif farþegaskipta skemmtiferðaskipa
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Hröð aukning hefur verið í ferðaiðnaði skemmtiferðaskipa hér á landi á undanförnum árum ef frá eru talin árin 2020-2022 þar sem áhrifa Covid gætti á alla ferðastarfsemi. Árið 2023 var metár í fjölda farþega sem ferðuðust á þessum skipum við Ísland. Þeir voru þá alls um 313.600 sem er um 70% aukning frá árinu 2019 sem er næst stærsta árið í þessari starfsemi. Bókanir næstu ára benda einnig til að áfram verið svipaður fjöldi farþega eða aðeins aukning á næstu tveimur árum.
    Lengi hefur verið talað um að lítill hagnaður væri af þessari grein ferðaiðnaðarins nema fyrir þær hafnir sem taka á móti skipunum og starfsemi tengda þeim. Á þessu hefur hins vegar orðið mikil breyting á síðustu árum með tilkomu skiptiskipa. Skiptiskipin eru rekin á tvennan hátt. Annars vegar koma farþegar með flugi til landsins, fara í skemmtisiglinguna og yfirgefa síðan landið aftur með flugi. Hins vegar koma farþegar til landsins með skemmtiferðaskipinu erlendis frá og yfirgefa skipið eftir skemmtisiglinguna og fara með flugi frá Íslandi. Í staðinn koma farþegar með flugi til Íslands og sigla með skipinu til baka til heimahafnar. Hér bætist því við sá möguleiki að lengja ferðina og skoða landið fyrir eða eftir siglinguna. Tæplega helmingur farþega skemmtiferðaskipanna eða 152.000 voru skiptifarþegar árið 2023.
    Í könnun Rannsóknamiðstöðvar ferðamála fyrir árið 2023 kom í ljós að um 60% skiptifarþeganna bættu við siglingarferð sína með dvöl á höfuðborgarsvæðinu. Dvölin var að meðaltali 2,15 dagar og meðalútgjöld þessara farþega í landi um kr. 97.600. Á móti eyddu farþegar á hefðbundnum skipum um kr. 27.900 í landi á höfuðborgarsvæðinu. Hér er því um verulegan mun að ræða. Einnig skapar þessi breyting aukna möguleika á hærri tekjum í framtíðinni t.d. með lengingu dvalartímans í landi og hærra hlutfalls þeirra farþega sem nýta sér þennan möguleika. Samstillt átak á þessu sviði er áhugaverður valkostur t.d. með myndun klasaframtaks í móttöku farþega skemmtiferðaskipa.
    Ferðamálastofa áætlar efnahagsleg umsvif skemmtiferðaskipa á Íslandi um 52,4 milljarða króna árið 2023. Eru það um 9 % af umsvifum ferðaiðnaðarins það ár. Í þessari skoðun er matið heldur hærra eða um 57,9 milljarðar króna.
    Helstu mótbárur gegn ferðaiðnaði skemmtiferðaskipa hafa verið litlar tekjur af farþegum, mengun umhverfis og yfirfjöldi ferðamanna einkum á minni viðkomustöðum. Ábatinn er að aukast verulega með tilkomu skiptiskipanna en það á nær eingöngu við á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf því að skoða vel hvað hægt er að gera annars staðar og það gæti hugsanlega verið þáttur í klasaframtakinu. Mengun af skipunum er einnig að minnka með alþjóðlegum reglum um gæði þess eldsneytis sem þau nota. Hún er þó enn alþjóðlegt vandamál sem ekki er auðvelt að leysa. Síðan hafa hafnir eins og Faxaflóahafnir sett upp rafmagnstengingar fyrir skip í höfn og með því minnkar eða hverfur staðbundin mengun þar. Áhrif af yfirfjölda ferðamanna eru mest á smærri stöðum og þar fara hagsmunir hafnaryfirvalda og íbúa ekki alltaf saman. Á sumum stöðum, t.d. Ísafirði, er farið að ræða takmörk á fjölda skipa eða fjölda farþega á dag og fara þær aðgerðir sennilega að hafa áhrif á þessu ári.
    Þótt ferðaiðnaður skemmtiferðaskipa geti verið viðkvæmur fyrir ytri áhrifum þá gera hagsmunaaðilar hér á landi greinilega ráð fyrir áframhaldandi viðgangi hans. Þannig eru Faxaflóahafnir að hefja byggingu á stórri farþegamiðstöð sem mun kosta um 3.7 milljarða króna. Ísfirðingar hafa einnig stækkað viðlegubakka fyrir skemmtiferðaskip og Siglfirðingar áforma nýjan viðlegukant fyrir þessi skip svo dæmi séu nefnd. Þessar auknu tekjur hafna landsins eru þannig að hraða allri uppbyggingu og endurnýjun þeirra. Það er því ástæða til að skoða allar leiðir til að viðhalda þessari starfsemi og auka hana eins og kostur er.

Samþykkt: 
  • 6.5.2024
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/46822


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS Ritgerð - Einar Gísli Gíslason Final.pdf2,46 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf386,28 kBLokaðurYfirlýsingPDF