Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46854
Ritgerð þessi fjallar um alþekkt vörumerki og umsókn um skráningu í vondri trú, sbr. 2. og 3. tölul. 14. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Gerð er grein fyrir þróun, inntaki og túlkun framangreindra lagaákvæða með hliðsjón af dóma- og úrskurðaframkvæmd. Þá er einnig fjallað er um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/2436/ESB um samræmingu á lögum aðildarríkja um vörumerki og þá alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að og hafa áhrif á réttarsviðið.
Vörumerkjaréttur hefur þróast hratt á síðustu árum en meginreglan er sú að vörumerkja-rétturinn er landsbundinn. Í því felst að vörumerki nýtur að jafnaði einungis verndar að því gefnu að það hafi verið skráð eða notað hér á landi. Hins vegar má segja að þrátt fyrir að rétturinn sé að meginreglu landsbundinn hafa vörumerki alþjóðlegt yfirbragð. Reynt hefur verið að koma til móts við þá vankanta sem fylgt hafa meginreglunni með alþjóðlegu samstarfi sem m.a. hefur leitt til þess að komið hefur verið á fót alþjóðlegu skráningarkerfi. Ákveðnar aðstæður hafa hins vegar orðið til þess að undantekningar hafa verið gerðar á meginreglunni, svo sem ákvæði 2. og 3. tölul. 14. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997 mæla fyrir um. Í ritgerðinni verður farið yfir þau skilyrði sem merki þarf að uppfylla til þess að teljast alþekkt í skilningi 2. tölul. 14. gr. vml. og þau atvik sem leitt geta til þess að umsækjandi verði talinn hafa verið í vondri trú við skráningu merkis, sbr. 3. tölul. 14. gr. vml. Þá er leitast við að svara þeirri spurningu hvort vörumerkjarétturinn sé raunverulega landsbundinn með tilkomu ákvæðanna.
Samandregið eru niðurstöðurnar að vörumerkjarétturinn sé enn að meginstefnu til landsbundinn og á það við þrátt fyrir tilvist 2. og 3. tölul. 14. gr. vml., enda er framangreindum lagaákvæðum almennt einungis beitt í þröngum undantekningartilvikum. Hins vegar er afar erfitt að spá fyrir um þá þróun sem mun eiga sér stað í framtíðinni með hliðsjón af aukinni alþjóðavæðingu og örri tækniþróun þar sem aldrei hefur verið auðveldara fyrir fyrirtæki að markaðssetja vörumerki sín út fyrir landamæri og á heimsvísu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerd-final.pdf | 957,32 kB | Lokaður til...06.05.2035 | Heildartexti | ||
yfirlýsing-lokaverkefni.pdf | 345,98 kB | Lokaður | Yfirlýsing |