en English is Íslenska

Thesis (Master's)

University of Iceland > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/46869

Title: 
 • Title is in Icelandic Það sem barni er fyrir bestu: Ákvörðun refsingar þegar sakborningur er foreldri
Degree: 
 • Master's
Abstract: 
 • Abstract is in Icelandic

  Ákvörðun refsingar er gjarnan talið eitt af vandasömustu verkum dómara, enda í mörg horn að líta, refsimörk almennt rúm, ríkir hagsmunir undir og mismunandi sjónarhorn sem þarf að vega og meta hverju sinni. Vistun manna í fangelsi er eitt það þungbærasta sem frjálsir menn verða fyrir af hálfu samfélagsins, en refsingin hefur ekki aðeins áhrif á brotamanninn sjálfan, heldur einnig aðstandendur hans og aðra nákomna. Börn brotamannsins eru þar engin undantekning.
  Hugtakið réttindi barnsins leit fyrst dagsins ljós á alþjóðavettvangi í byrjun 20.
  aldarinnar. Þangað til hafði löngum verið litið á börn sem ósjálfstæða og valdalausa einstaklinga, sem hvorki áttu réttindi né báru skyldur. Á 20. öldinni jókst hins vegar umræða um mannréttindi almennt og í kjölfarið umræða um sérstök réttindi barna. Nú rúmlega heilli öld síðar hafa þessar hugmyndir þróast enn frekar og í dag eru börn almennt ekki álitin eign foreldra sinna, heldur einstaklingar sem eiga rétt á að njóta umönnunar þeirra og umsjá.
  Barnasáttmálinn endurspeglar þessa nýju og byltingarkenndu sýn á réttarstöðu barna og hefur hann átt stóran þátt í mótun nýrra alþjóðlegra viðmiða um hvernig líta beri á og koma skuli fram við börn. Reglan um það sem barni er fyrir bestu, sem finna má í 3. gr. sáttmálans, spilar þar veigamikið hlutverk.
  Á síðustu árum hefur umræða um börn fanga aukist til muna og hafa þau, meðal annars í nýlegri skýrslu á vegum Umboðsmanns barna, verið nefnd hin þöglu fórnarlömb fangelsisvistunar. Um er að ræða mikilvæga tímamótaumfjöllun um réttindi og hagsmuni þessa hóps hér á landi, en rannsóknir hafa sýnt að refsivist foreldris hefur bæði mikil og neikvæð áhrif á börn. Í því skyni er ekki síður mikilvægt að huga að réttindum og hagsmunum barna í aðdraganda og við ákvörðun refsingar þegar foreldrar eða forsjáraðilar komast í kast við refsilög, en um slíkt hefur lítið sem ekkert verið fjallað á Íslandi.
  Viðfangsefni ritgerðar þessarar er að skoða hvort og þá hvaða áhrif meginreglan um það sem barni er fyrir bestu hafi við mat á ákvörðun refsingar þegar sá sem borinn er sökum eða grunaður er um refsiverða háttsemi er foreldri.
  Til hægðarauka verður í upphafi vikið að helstu hugtökum tengdum stöðu foreldra, s.s. um forsjá, lögheimili og umgengni. Í þriðja kafla verður fjallað almennt um refsingar og ákvörðun þeirra. Sú umfjöllun miðast fyrst og fremst við gildandi rétt, en einnig verður byggt á fræðaskrifum og vikið að þróun og almennum undirstöðuatriðum refsiréttar. Í fjórða kafla verður fjallað um meginregluna um það sem barni er fyrir bestu. Sérstök áhersla verður lögð á 3. gr. Barnasáttmálans, en auk þess verða ýmis sjónarmið reifuð úr umfjöllun fræðimanna, almennum álitum, lokaathugasemdum og skýrslugjöf Barnaréttarnefndarinnar í Genf (hér eftir „Barnaréttarnefndin“) sem starfar á grundvelli samningsins. Þá fer einnig fram athugun á helstu löggjöf á sviði barnaréttar í íslenskum rétti og kannað hvar og hvernig meginregluna sé að finna í íslenskum lögum. Í fimmta kafla verður fjallað um niðurstöður kerfisbundinnar skoðunar á dómaframkvæmd Hæstaréttar á árabilinu 2015 til 2024 og Landsréttar á árabilinu 2018 til 2024 sem gerð var til að varpa ljósi á beitingu og túlkun meginreglunnar í íslenskri réttarframkvæmd. Til samanburðar verður í sjötta kafla vikið að löggjöf og réttarframkvæmd Noregs sem var fyrst norrænna ríkja til að lögfesta Barnasáttmálann. Í sjöunda kafla verða að lokum dregnar ályktanir, veittar ábendingar og helstu niðurstöður teknar saman um hvernig bæta megi og breyta íslenskri réttarframkvæmd svo hægt sé að tryggja að hagsmunir barna verði hafðir að leiðarljósi við ákvörðun refsingar foreldra þeirra.

Accepted: 
 • May 7, 2024
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/46869


Files in This Item:
Filename Size VisibilityDescriptionFormat 
Dagbjört Ýr Kiesel - Það sem barni er fyrir bestu 2024.pdf930.38 kBLocked Until...2034/05/06Complete TextPDF
Dagbjört Ýr Kiesel - Lokaverkefni.pdf126.66 kBLockedDeclaration of AccessPDF