Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46880
Bakgrunnur: Skjaldkirtillinn framleiðir skjaldkirtilshormónin T3 og T4 sem verka á nær allar frumur líkamans til að stjórna efnaskiptum. Skjaldkirtilshormónum er haldið innan þröngra marka af undirstúku og heiladingli í gegnum undirstúku-heiladinguls-skjaldkirtilsöxulinn. Truflun í starfsemi skjaldkirtils getur valdið skjaldvakabresti eða skjaldvakaofseytingu, sem hvort tveggja leiðir til margvíslegra einkenna sem hafa áhrif á lífsgæði, andlega líðan einstaklinga, vitsmunastarfsemi og hefur einnig verið tengd við þróun heilabilunarsjúkdóma. Hjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu hlutverki í meðferð og stuðningi við einstaklinga með skjaldkirtilssjúkdóma og mikilvægt er að þeir hafi þekkingu á þeim afleiðingum sem truflun í starfsemi skjaldkirtils getur haft á andlega líðan og vitsmunastarfsemi.
Tilgangur: Tilgangurinn með þessari fræðilegu samantekt var að skoða áhrif truflunar á skjaldkirtilshormónum á andlega líðan og vitsmunastarfsemi, sem og birtingarmynd einkenna.
Aðferð: Framkvæmd var kerfisbundin leit samkvæmt PRISMA-flæðiriti í gagnagrunnum PubMed og Web of Science. Rannsóknarspurning var mótuð eftir PICOTS-viðmiðum. Skoðaðar voru megindlegar rannsóknir frá árunum 2014-2024 sem uppfylltu inntökuskilyrði og gerð fræðileg samantekt.
Niðurstöður: Samtals uppfyllti 21 megindleg rannsókn inntökuskilyrði þar sem skoðuð voru tengsl andlegrar líðanar og vitsmunastarfsemi við skjaldkirtilssjúkdóma. Niðurstöður leiddu í ljós að einstaklingar með skjaldvakaofseytingu eru líklegri til þess að finna fyrir þunglyndi og kvíða en þeir sem eru með skjaldvakabrest. Karlar eru þá líklegri en konur til þess að finna fyrir andlegri vanlíðan þegar litið er til einstaklinga með skjaldvakaofseytingu, en konur eru með auknar líkur á andlegri vanlíðan í skjaldvakabresti miðað við karla í sama hópi. Skjaldvakabrestur og skjaldvakaofseyting framkalla lífefnafræðilegar breytingar í heila sem stuðla að þróun taugahrörnunarsjúkdóma og vitsmunaskerðingar. Tengsl eru á milli skjaldkirtilssjúkdóma og heilabilunarsjúkdóma. Einstaklingar með truflun í skjaldkirtli hafa sértækar vitsmunaskerðingar sem má meðal annars rekja til efnaskiptatruflana í heila.
Ályktun: Skjaldkirtilssjúkdómar hafa áhrif á andlega líðan og vitræna starfsemi en skilningur á þessu flókna sambandi þeirra er enn takmarkaður. Frekari rannsókna er þörf til að kanna orsakasamband andlegrar líðanar og vitsmunastarfsemi. Nauðsynlegt er að þróa stöðluð matstæki til að meta andlega líðan og vitsmunastarfsemi þeirra sem eru með skjaldkirtilssjúkdóma til að hægt sé að tryggja árangursríka meðferð.
Lykilorð: Skjaldvakabrestur, skjaldvakaofseyting, andleg líðan, vitsmunastarfsemi
Background: The thyroid gland produces the thyroid hormones T3 and T4, which act on almost every cell in the body to regulate metabolism. Thyroid hormones are kept within narrow limits by the hypothalamus and pituitary gland through the hypothalamic-pituitary-thyroid axis. Thyroid gland dysfunction can result in either hypothyroidism or hyperthyroidism, both of which induce a variety of symptoms that impact an individual's quality of life, mental health, cognitive function, and have been associated with the development of dementia. Nurses play an important role in the treatment and support of individuals with thyroid diseases, and it is crucial that they have knowledge of the impact that thyroid dysfunction can have on mental well-being and cognitive function.
Purpose: The purpose of this literature review was to examine the effects of thyroid hormone disruption on mental well-being and cognitive function, as well as symptom presentation.
Method: A systematic search was conducted following the PRISMA flow chart guidelines in the PubMed and Web of Science databases. A research question was formulated based on the PICOTS criteria. Quantitative studies published between 2014 and 2024, which satisfied the inclusion criteria, were analyzed, and a literature review was developed.
Results: A total of 21 quantitative studies met the inclusion criteria examining the relationship between mental well-being and cognitive function with thyroid diseases. Results revealed that individuals with hyperthyroidism are more likely to experience depression and anxiety than those with hypothyroidism. Men with hyperthyroidism are then more likely than women to experience mental distress, while women have an increased likelihood of mental distress in hypothyroidism compared to men. Hypothyroidism and hyperthyroidism produce biochemical changes in the brain that contribute to the development of neurodegenerative diseases and cognitive impairment. There is a link between hypothyroidism and hyperthyroidism and the development of dementia. Individuals with thyroid dysfunction have specific cognitive impairments that can be attributed, among other things, to metabolic disturbances in the brain.
Conclusion: Thyroid disorders affect mental health and cognitive function, but understanding of this complex relationship remains limited. Further research is needed to examine the causal relationship between mental well-being and cognitive function. It is necessary to develop standardized assessment tools to assess mental well-being and cognitive function in thyroid disease to ensure effective treatment.
Keywords: Hypothyroidism, hyperthyroidism, mental health, cognitive function
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skjaldvakabrestur og skjaldvakaofseyting - Áhrif á andlega líðan og vitsmunastarfsemi.pdf | 2.03 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing lokaverkefnis.pdf | 332.52 kB | Lokaður | Yfirlýsing |