Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/46973
Ritgerðin fjallar um fjármagnsskipan fyrirtækja en það umræðuefni hefur verið bitbein fræðimanna í fjármálum um margra áratuga skeið. Upphaf þess fræðahluta má rekja til tímamótagreinar Miller og Modigliani um að virði fyrirtækja væri óháð því hvernig þau væru fjármögnuð. Greinin hratt af stað miklum umræðum og rannsóknum sem varla sér fyrir endann á. Enn hefur ekki komið fram á sjónarsviðið sú kenning sem nær að svara spurningunni um hagkvæmustu fjármagnsskipan með óyggjandi hætti eða hrekja upphaflega kenningu þeirra félaga. Ef ekki væri fyrir innbyggða hvata löggjafans sem heimila að vaxtagjöld séu dregin frá rekstrartekjum mætti jafnvel halda því fram að kenning þeirra hafist staðist tímans tönn. Umræðu um fjármagnsskipan má gjarnan heyra í samhengi við kröfur fjárfesta um aukna arðsemi eigin fjár og arðgreiðslur. Meginmarkmið með ákvörðunum í rekstri fyrirtækja er hámörkun virðis. Fjárfestingar þurfa að standast kröfur um lágmarksarðsemi til að í þær sé ráðist. Arðsamar fjárfestingar munu til lengri tíma bæta arðgreiðslugetu fyrirtækja. Standi fyrirtæki frammi fyrir því að því ekki bjóðist arðsamar fjárfestingar ætti það að skila fé til hluthafa. Faxaflóahafnir sf. er sameignarfélag í eigu nokkurra sveitarfélaga og rekur hafnsækna starfsemi við Faxaflóa. Félagið er undanþegið greiðslu tekjuskatts og því eru ekki hefðbundnir hvatar til skuldsetningar fyrir hendi. Í ritgerðinni er framkvæmt einfalt verðmat á félaginu í þeim tilgangi að greina áhrif skuldsetningar á virði félagsins. Niðurstaðan af þeirri greiningu er sú að hófleg skuldsetning hefur ekki afgerandi neikvæð áhrif á virði félagsins. Sem lántaki ættu Faxaflóahafnir sf. að standa vel að vígi með hátt hlutfall fastafjármuna, í innviðarekstri og í eigu opinberra aðila sem bera ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS ritgerð Fjármagnsskipan fyrirtækja.pdf | 763,41 kB | Lokaður til...10.05.2030 | Heildartexti | ||
Staðfesting á skilum - Bjarki Rafn Eiríksson.pdf | 356,24 kB | Lokaður | Yfirlýsing |