Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47023
Nikótínpúðar hafa notið mikilla vinsælda víða um heim frá því þeir komu fyrst á markað árið 2008 í Svíþjóð. Euromonitor metur það sem svo að nikótínpúðamarkaður heimsins hafi verið 10,29 milljarða Bandaríkjadala virði árið 2023 og spá um 65% söluaukningu í heiminum næstu fjögur árin. Árið 2023 voru flutt inn 155.899 kg af nikótínpúðum til Íslands sem eru rúmlega tíu milljónir dósa. Stefnt er að því að stofna fyrirtækið Púðar ehf. sem framleiðir nikótínpúða í atvinnuhúsnæði í Garðabæ sem leigt er til rekstursins. Vélarnar sem þarf fyrir framleiðsluna kosta 9.737.544 kr. Um er að ræða framleiðslulínu sem samanstendur af 8 vélum sem sjá um að blanda innihaldsefnin, setja saman púðana, fylla á dósir og merkja. Gert er ráð fyrir þremur starfsmönnum þ.e. framkvæmdastjóra sem sér um stjórnun og markaðs – og sölumál og tveimur starfsmönnum í framleiðslu og á lager. Stefnt er að því að útvista skrifstofu fyrirtækisins þ.e. störfum gjaldkera, bókhaldi og launavinnslu. Hámarksframleiðslugeta miðað við 8 tíma vinnudag þar sem unnið er 5 daga í viku eru 38.400 dósir á mánuði eða 460.800 dósir á ári. Kostnaðarverð hverrar dósar er 50,83 kr. og framlegð hverrar dósar er því 349,17 kr. miðað við að dósin sé seld á 400 kr. í heildsölu. Miðað við þessar forsendur er núllpunktur við sölu 13.524 dósir á mánuði. Í rekstraráætlun er gert ráð fyrir fjárþörf í upphafi upp á 30 milljónir kr. sem eru notaðar til að kaupa vélar, standa undir stofnkostnaði og til að komast í gegnum fyrstu mánuðina í rekstri. Hagnaður á öðru ári er áætlaður rúmlega 28 milljónir kr. miðað við að salan nái 60% af framleiðslugetu á því ári. Á fjórða ári er gert ráð fyrir 79 milljóna kr. hagnaði og er þá miðað við að það náist að selja 100% af framleiðslugetu.
Það er að mínu mati þjóðhagslega hagkvæmt að framleiða nikótínpúða á Íslandi þar sem það dregur úr útstreymi gjaldeyris, skapar störf og er liður í sjálfbærni Íslands. Helstu áskoranirnar varðandi rekstur fyrirtækisins felast í markaðssetningu nýrra nikótínpúða þar sem bannað er með lögum að auglýsa vöruna og stilla henni fram í verslunum. Stjórnvaldsákvarðanir eins og breytingar á lögum um nikótínvörur eru mikill óvissuþáttur og gætu haft áhrif á verð og eftirspurn en að sama skapi gætu tollabreytingar ýtt undir innanlandsframleiðslu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
image_67149569.JPG | 1,93 MB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG | |
Lokaritgerð KJK lokaútgáfa leiðrétt.pdf | 871,43 kB | Lokaður til...10.05.2034 | Heildartexti |