Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47063
Inngangur: Erfitt getur reynst að mæla málþroska hjá börnum með íslensku að móðurmáli án aðgengis að góðum málþroskaprófum sem byggja á íslenskum rannsóknum á íslenskumælandi þýði. Þau málþroskapróf sem notast er við í dag fyrir 6–10 ára börn eru byggð á enskri tungu og út frá enskumælandi þýði. Með því að nota erlend málþroskapróf eykst hættan á skekkjum í niðurstöðum þar sem málþroski íslenskra barna er að mörgu leyti frábrugðinn málþroska og máltöku enskumælandi barna. Til að bregðast við skorti á íslenskum og nýlegum mælitækjum á málþroska 6–10 ára barna hefur verið ráðist í að hanna nýtt málþroskapróf. Nýja málþroskaprófið, sem ber heitið Málfærni íslenskumælandi grunnskólabarna (MÍSL-G), er alhliða greiningarpróf þar sem það kemur inn á alla fimm málþætti tungumálsins og samanstendur af mörgum mismunandi undirprófum. Í þessari rannsókn eru þrjú af 11 undirprófum MÍSL-G forprófuð en þessi þrjú undirpróf ná til málþáttarins merkingarfræði og snúa bæði að málskilningi og máltjáningu. Safnað er tölfræðilegum upplýsingum um hvert prófatriði og hvert undirpróf og lagt mat á próffræðilega eiginleika þeirra. Í kjölfarið geta höfundar prófsins tekið ákvörðun um hvaða prófatriði henti til mats á málþroska 6–10 ára barna og hvaða atriði þurfi að endurskoða. Niðurstöður eru mikilvægur liður í áframhaldandi þróun prófsins. Rannsóknarspurningarnar, sem hér er settar fram, snúa annars vegar að því hvort þau orð sem hafa verið valin í forprófunina, henti til mats á viðkomandi aldurshópi og hins vegar, hvort greina megi aldurstengdan eða kynbundinn mun á frammistöðu barnanna.
Aðferð: Nýja málþroskaprófið var lagt fyrir 106 grunnskólabörn á aldrinum 6–10 ára, bæði af landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Notast var við hentugleikaúrtak, börn voru valin í þrjú aldursbil (6;0–6;5, 7;10–8;4 og 9;6–9;11 ára) til að tryggja sem bestan samanburð á getu eftir aldri. Börnin voru eintyngd með íslensku að móðurmáli og talin vera með eðlilegan þroska. Einnig var reynt að halda kynjahlutfalli jöfnu. Reiknað var hlutfall réttra svara og hlutfallslegur munur réttra svara eftir aldursbilum og undirprófum. Rétt svarhlutfall var einnig reiknað fyrir hvert atriði. Innri áreiðanleiki var fundinn með G6 áreiðanleikastuðli fyrir hvert undirpróf, leiðrétt fylgni prófatriða við undirpróf metin ásamt fylgni milli undirprófa. Til að leggja mat á hvort marktækur munur væri á milli aldurshópa eða kynja var tvíkosta aðhvarfsgreining með blönduðu líkani framkvæmd.
Niðurstöður: Niðurstöður leiddu í ljós hvaða atriði voru aldursgreinandi, með góða þyngd, fylgni og áreiðanleika. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að rétt svarhlutfall fari hækkandi eftir aldri á öllum þremur undirprófunum, marktækur munur var milli yngsta og miðaldursbilsins í öllum undirprófunum en einungis milli elsta og miðaldurshópsins í undirprófinu Tjáning – orðskýringar. Ekki mátti greina marktækan kynjamun. Innri áreiðanleiki fyrir undirprófin var hár auk þess sem martæk jákvæð fylgni var á milli undirprófanna.
Umræða og ályktanir: Niðurstöðurnar bentu til að atriðasafn undirprófanna greindi helst á milli yngsta hópsins og miðhópsins og að lagt er til að fundin verði atriði sem komi til með að greina betur á milli miðhóps og elsta hópsins. Nokkur atriði stóðust ekki tölfræðilegar kröfur út frá þyngd, áreiðanleika og fylgni og henta því ekki til mats á málþroska 6–10 ára barna. Út frá þessum niðurstöðum geta höfundar prófsins valið hvaða atriði þeir kjósa við áframhaldandi þróun prófsins.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS-Ritgerð_Vilborg_Sólrún_Jóhannsdóttir.pdf | 3,19 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing.png | 2,1 MB | Lokaður | Yfirlýsing | PNG |