Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47074
Bakgrunnur og markmið: Eldra fólki er sífellt að fjölga og með auknum aldri aukast líkur á byltum og alvarlegum afleiðingum þeirra. Niðurstöður rannsókna benda til þess að hreyfing af hæfilegri ákefð, í viðeigandi aðstæðum geti virkað sem forvörn gegn byltum en hreyfing þar sem aðstæður eru of krefjandi fyrir líkamlega getu geti hins vegar aukið hættu á byltum. Markmið þessa meistaraverkefnis var að rannsaka tengsl á milli daglegrar hreyfingar, við mismunandi aðstæður (frístundir, heimilisstörf og vinnu), og byltusögu á seinustu 12 mánuðum hjá eldri einstaklingum sem bjuggu heima. Einnig að rýna í hvort þessi tengsl héldust stöðug þegar tekið var tilliti til aldurs, kyns og búsetu þátttakenda. Efni og aðferðir: Þessi lýðgrundaða þversniðsrannsókn byggði á fyrirliggjandi gögnum sem var safnað á árunum 2017-‘18. Þátttakendur voru 175 talsins, 65 til 92 ára, 57% voru karlar og 60% bjuggu í þéttbýli. Staðlaði spurningalistinn Physical Activity Scale for the Elderly var notaður til að meta daglega hreyfingu þátttakenda. Spurningalistinn skiptist í heildarkvarða og þrjá undirkvarða sem meta hreyfingu við frístundir, heimilisstörf og vinnu sem reynir á líkamann. Upplýsingar um byltur byggja á svörum við spurningu um hversu oft þátttakendur höfðu dottið á síðustu 12 mánuðum. Lykilbakgrunnsbreytur voru kyn, aldur og búseta (þéttbýli, dreifbýli). Tölfræðigreiningin fólst meðal annars í fjölþátta lógistískri aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Fjölþátta greining leiddi í ljós að hreyfing við mismunandi aðstæður tengdist byltusögu síðustu 12 mánuði þannig að þeir sem dutta endurtekið fengu fleiri stig fyrir líkamlega vinnu. Jafnframt hafði hreyfing við heimilisstörf verndandi áhrif þar sem meiri hreyfing við heimilisstörf tengdist minni líkum á byltum. Varðandi bakgrunnsbreytur, reyndist það að búa í dreifbýli og að vera karl hafa sjálfstæð tengsl við meiri líkur á byltum, og hærri aldur hafði sjálfstætt samband við minni líkur á endurteknum byltum. Ályktanir: Niðurstöðurnar styðja við nauðsyn persónumiðaðrar nálgunar í byltuvörnum þar sem horft er til bakgrunns einstaklinga og hvernig þau hreyfa sig í daglegu lífi. Mikilvægt er að rannsaka frekar vísbendingar um að hreyfing tengd heimilisstörfum geti dregið úr líkum á byltum og að þau sem höfðu dottið endurtekið fengu fleiri stig fyrir líkamlega vinnu. Þessar niðurstöður geta nýst sjúkraþjálfurum og öðru heilbrigðisstarfsfólki til að efla forvarnir og meðferð sem miðar að því að minnka líkur á byltum hjá eldri einstaklingum, og draga úr skaðlegum áhrifum bylta.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skemman_yfirlysing.pdf | 255,89 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Sædís-LOKAÚTGÁFA_.pdf | 2,56 MB | Lokaður til...16.06.2025 | Heildartexti |