Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47105
Inngangur: Nýburagula stafar af hárri þéttni bilirúbíns í blóði og vefjum. Ef þéttni bilirúbíns verður of há getur barnið orðið fyrir langvarandi heilaskaða. Ljósameðferð við nýburagulu í heimahúsi hófst á Íslandi í mars árið 2023. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvenær nýburar greinast með gulu sem þarfnast meðferðar og hvort hægt sé að finna áhættuþætti alvarlegarar gulu. Annað markmið var að meta árangur ljósameðferðar í heimahúsi.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Úrtakið var allir nýburar fæddir eftir 36 vikna meðgöngu sem fengu ljósameðferð vegna nýburagulu árin 2021-2023 og allir nýburar sem mældust með bilirúbín >400 µmól/L árin 2009-2023. Jafnframt voru höfð með börn sem fengu ljósameðferð í heimahúsi frá mars 2023 til mars 2024. Börn sem fengu alvarlega gulu (bilirúbín >400 µmól/L) voru borin saman við börn sem fengu vægari gulu með tilliti til áhættuþátta og verndandi þátta. Árangur ljósameðferðar í heimahúsi var metinn út frá því hvort bilirúbíngildi lækkaði við meðferðina.
Niðurstöður: 102 börn fengu alvarlega gulu, en 310 vægari gulu sem þarfnaðist ljósameðferðar. 61% barnanna sem fengu alvarlega gulu greindust í „fimm daga skoðun“ barnalæknis, en 25% þeirra sem fengu vægari gulu (p<0,001). Sjálfstæður áhættuþáttur alvarlegrar gulu var austur asískur uppruni móður, en verndandi þættir að vera síðfyrirburi, fæðingarþyngd <3800 g og fæðing með keisaraskurði. Börn sem fengu vægari gulu útskrifuðust heim marktækt seinna en þau sem fengu alvarlega gulu (p=0,009). Af þeim 60 börnum sem fengu ljósameðferð í heimahúsi lækkaði bilirúbíngildi í 95% tilvika á fyrstu 24 klukkustundum frá því meðferð hófst. Ekkert þeirra fékk alvarlega gulu.
Ályktanir: Nýburar með þekkta áhættuþætti fyrir gulu fá síður alvarlega gulu, hugsanlega vegna betra eftirlits. Ljósameðferð í heimahúsi samkvæmt gildandi verklagi er árangursrík og meðferðin virðist vera örugg.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Bryndis_BS.pdf | 1.26 MB | Lokaður til...31.12.2026 | Heildartexti | ||
Skemman_yfirlysing 2.pdf | 250.37 kB | Lokaður | Yfirlýsing |