Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47143
Bakgrunnur: Höfuðbeinaáverkar hafa verið lítið rannsakaðir hér á landi og vísbendingar benda til að þeim fylgi slæmar langtímaafleiðingar. Markmið rannsóknarinnar var að auka þekkingu á nýgengi, komum, orsökum og endurhæfingu eftir höfuðbeinaáverka hjá einstaklingum 18 – 65 ára á Íslandi.
Aðferð: Rannsóknin var afturskyggð lýsandi rannsókn á gögnum frá Landspítalanum á einstaklingum 18 – 65 ára sem komu á bráðamóttöku Landspítala vegna höfuðbeinaáverka, á árunum 2010 – 2023. Upplýsingum um einstaklinga og komur þeirra, sem voru með skráða ICD-10 höfuðbeinaáverka greiningu, var safnað og greind. Upplýsingum um lýðfræðileg gögn, orsakir, áverkagreiningu, endurkomur, meðáverka, innlagnir, dauðsföll og komur í endurhæfingu var aflað. Gögn voru greind með lýsandi tölfræði.
Niðurstöður: Það voru 134 heimsóknir á bráðamóttöku á ári á hverja 100.000 íbúa, karlar (73,3%) og einstaklingar búsettir á Íslandi (79,9%) voru í meirihluta. Hæsta nýgengið var hjá aldurshópnum 18 - 25 ára (253 á hverja 100.000). Árlegum komum fækkaði á rannsóknartímabilinu en árin 2019 og 2020 voru komur að meðaltali 82 færri, þeim fjölgaði svo aftur árið 2021. Skráðar innlagnir voru 853 (21,4%), ofbeldisverk var algengasta ástæða komu (34,0%), nefbrot (41,1%) var algengasta greiningin og mjúkpartaáverkar (79,0%) algengasta með áverkagreiningin. Ári eftir áverkann voru 45 einstaklingar látnir (1,2%). 572 einstaklingar höfðu leitað endurhæfingar á Landspítalanum ári eftir skaða, voru skráðar komur þeirra 3.285 og flestar komur þeirra voru í meðferð hjá lækni (56,7%). Konur leituðu sér endurhæfingar í svipuðu mæli og karlar.
Ályktun: Komur á bráðamóttöku vegna höfuðbeinaáverka eru algengar en komur í endurhæfingu á Landspítala í kjölfar þessara áverka eru ekki margar. Þessi sjúklinga hópur þarf á sérhæfðri endurhæfingu að halda. Sjúkraþjálfarar gegna lykilstöðu í endurhæfingu og eftirfylgni eftir höfuðbeinaáverka sem og greiningu á fylgikvillum sem geta komið samhliða áverkanum. Frekari rannsókna er þörf á afleiðingum höfuðbeinaáverka og til að endurspegla mikilvægi sjúkraþjálfara í meðferð þessara áverka.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerð til meistaragráðu 1.pdf | 538,07 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
IMG_5973.pdf | 14,5 MB | Lokaður | Yfirlýsing |