is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47215

Titill: 
  • Upplifun og líðan kvenna í brjóstaskimun og sjálfskoðun brjósta. Er hægt að gera betur?
Námsstig: 
  • Diplóma meistara
Útdráttur: 
  • Inngangur: Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna og að meðaltali greinast um 260 konur á ári með þetta tiltekna krabbamein. Þessa gerð af krabbameini er hægt að greina snemma með brjóstaskimun en með því hafa lífshorfur aukist og dánartíðni lækkað. Brjóstaskimun er í boði fyrir konur frá aldrinum 40 – 75 ára. Þátttaka kvenna í brjóstaskimun hefur verið í lakari kantinum síðustu árin. Það er mjög mikilvægt að konur mæti þegar þær fá boð í brjóstaskimun en kvíði eða slæm fyrri upplifun getur valdið því að þær annað hvort fresta tímanum eða hreinlega mæta ekki. Sjálfskoðun brjósta gegnir einnig mikilvægu hlutverki í snemmgreiningu á brjóstakrabbameini en ef konur þekkja brjóstin sín er auðveldara fyrir þær að taka eftir breytingum sem geta valdið meinsemdum. Þetta kemur þó ekki í staðinn fyrir brjóstamyndatöku sem er gerð í brjóstaskimun. Markmið: Skoða hver upplifun og líðan kvenna er í brjóstaskimun ásamt hvort þær séu að stunda reglulega sjálfskoðun á brjóstum sínum. Niðurstöður munu veita innsýn inn í líðan þeirra bæði fyrir og eftir brjóstaskimun en einnig upplýsingar um stöðu kvenna með sjálfskoðun á brjóstum sínum.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin er framsýn megindleg rannsókn þar sem spurningalisti var aðgengilegur í biðstofu fyrir brjóstaskimun frá 22. Janúar 2024 til 20. Mars 2024. Á spurningalistanum var spurt um sjálfskoðun á brjóstum, líðan fyrir rannsókn ásamt upplifun eftir hana. Rannsóknarúrtak voru allar þær konur sem mættu í brjóstaskimun á þessu tiltekna tímabili. Gögnin voru gerð rafræn í Excel þar sem öll gagnaúrvinnsla fór fram, prósentuhlutföll voru reiknuð og kí-kvaðratpróf framkvæmd fyrir valin atriði.
    Niðurstöður: Þátttakendur voru konur í meirihluta og flestar á aldrinum 51 – 60 ára. Það voru 86,8% kvenna sem mæta reglulega í brjóstaskimun þegar þeim berst boðsbréf en aðeins 13,6% finna fyrir kvíða fyrir rannsókninni. Flestir eða 49,1% af þeim sem svöruðu spurningunni sögðu að kvíðinn væri vegna niðurstaða en næst algengast var að rannsóknin væri óþægileg, 20,9%. Kvíðinn byrjaði á mismunandi tímum en 34,3% af þeim sem svöruðu sögðu að kvíðinn byrjaði nokkrum dögum fyrir rannsóknina. Aðeins 3,4% sögðu að kvíðinn hélt fyrir þeim vöku. Það voru 51,2% sem stunda reglulega sjálfskoðun en aðeins 20,1% framkvæma hana á réttum tíma og 37,1% nota rétta aðferð. Það voru 55,0% þátttakenda sem sögðust þekkja einkenni brjóstakrabbameins og af þeim náðu 4,0% að velja einkennin rétt á spurningalistanum. Það voru 66,8% þátttakenda sem sögðu að það vantaði meiri fræðslu um sjálfskoðun á brjóstum. Aðeins 10,3% var með kvíða eftir rannsókn en 92,3% sögðu rannsóknina hafa verið eins og búist mátti við. Það voru einungis 5,0% þátttakenda sagði að rannsóknin hafi verið óþægilegri og 2,7% sagði hún sársaukafyllri en búist var við en 57,5% sagði að rannsóknin var minna mál en búist var við. Stór meirihluti kvenna eða 98,8% sagði að það hafi verið vel tekið á móti þeim þegar þær mættu inn á rannsóknarstofuna.
    Ályktanir: Niðurstöður um upplifun kvenna í brjóstaskimun benda til að upplifun þeirra er almennt séð góð en aðeins lítill hluti þeirra kvenna sem mæta hafa neikvæða upplifun eða finna fyrir kvíða. Út frá niðurstöðum úr sjálfskoðunar hluta spurningalistans er hægt er að draga þá ályktun að þörf er á frekari fræðslu varðandi sjálfskoðun á brjóstum kvenna.

Samþykkt: 
  • 22.5.2024
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/47215


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Diplómaritgerð í geislafræði - skemman.pdf967.28 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.php.pdf79.02 kBLokaðurYfirlýsingPDF