Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/47217
Inngangur: Konum í áhættu að fá meðgöngueitrun er ráðlagt að nota hjartamagnýl til að fyrirbyggja snemmkomna meðgöngueitrun. Hættan á meðgöngueitrun er metin í mæðravernd út frá heilsufarsþáttum og er hver meðganga þannig áhættuflokkuð. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hversu oft snemmkomin meðgöngueitrun var greind meðal frumbyrja og fjölbyrja sem tilheyrðu ekki áhættuflokki og fengu þar af leiðandi ekki ráð um fyrirbyggjandi meðferð með hjartamagnýl. Efni og aðferðir: Rannsóknin var ferilrannsókn byggð á gögnum úr Fæðingarskrá Íslands um
allar fæðingar á tímabilinu 2015 - 2020 (N=25.384). Meðgöngueitrun var skilgreind út frá ICD-10 greiningarkóðum. Snemmkomin meðgöngueitrun var skilgreind sem meðgöngueitrun sem leiddi til fæðingar fyrir 37 vikna meðgöngu. Áhættuþættir voru skilgreindir út frá aldri mæðra, BMI og greiningarkóðum og skoðaðir eftir bæri. Við greiningu gagna var notast við lýsandi tölfræði. Niðurstöður: Meðgöngueitrun var algengari meðal frumbyrja (5,5%) heldur en fjölbyrja (1,8%) og greiningum fjölgaði örlítið yfir rannsóknartímabilið vegna hækkandi hlutfalls frumbyrja. Alls voru 9,3% frumbyrja metnar í áhættu fyrir meðgöngueitrun og 11,6% fjölbyrja skv. núverandi áhættumati. Alls voru 120 frumbyrjur sem fengu snemmkomna meðgöngueitrun og voru 70,0% þeirra ekki flokkaðar í áhættu að fá meðgöngueitrun en meðal 70 fjölbyrja sem fengu snemmkomna meðgöngueitrun voru 48,6% ekki flokkaðar í áhættu. Ályktun: Áhættuflokkunin aðgreindi sjaldnar frumbyrjur en fjölbyrjur sem síðar fengu snemmkomna meðgöngueitrun. Íhuga þarf hvort innleiða eigi nákvæmari skimunarleiðir til að flokka fleiri konur réttilega í áhættu eða hvort ráðleggja eigi öllum frumbyrjum að taka hjartamagnýl. Rétt er að rannsaka bæði meðferðarheldni kvenna og ágæti nýrra skimunarprófa áður en slíkar breytingar eiga sér stað.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Bs_Snemmkomin_medgongueitrun.pdf | 2,21 MB | Locked Until...2026/06/15 | Complete Text | ||
Skemman_yfirlysing.pdf | 696,62 kB | Locked | Declaration of Access |