Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47249
Inngangur: Næringarmeðferðir fyrir alvarlega veika sjúklinga hafa þróast hratt í gegnum árin og mikilvæg skref verið stigin í átt að því að sérsníða næringarmeðferðir fyrir hvern og einn sjúkling. Áherslan hefur þó fyrst og fremst verið á bráða fasa veikinda og lítil áhersla verið lögð á bata fasann. Orku- og próteinþörf sjúklinga á almennum deildum sjúkrahúsa eftir útskrift af gjörgæslu er því illa skilgreind og upplýsingar um næringarþarfir og inntöku eru lítið þekktar. Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa orku- og próteininntöku sjúklinga á almennum deildum, eftir útskrift af gjörgæslu, með þriggja daga fæðuskráningu og bera saman við orku- og próteinþörf þeirra.
Aðferðir: Rannsóknin var framsýn lýsandi rannsókn á 13 sjúklingum sem voru lagðir inn á gjörgæsludeildir Landspítalans á tímabilinu september til desember 2023. Sjúklingar voru skimaðir fyrir áhættu á vannæringu með gildismetnu skimunartæki við flutning á almennar deildir. Orkuþörf var reiknuð útfrá meðaltalsútreikningum úr óbeinum efnaskiptamælingum sem framkvæmdar voru á gjörgæslu og ráðleggingum evrópskra samtaka um klíníska næringu (ESPEN). Próteinþörf var reiknuð út frá ráðleggingum frá ESPEN. Orku- og próteininntaka var metin í þrjá samfellda daga með gildismetnu diskamódeli. Undir matarskráninguna féllu allar máltíðir sem sjúkrahúsið útvegaði, hvers kyns viðbótar matur sem sjúklingarnir fengu og næring um sondu eða næring í æð.
Niðurstöður: Meðal orkuþörf samkvæmt óbeinni efnaskiptamælingu var 1883 (± 431) kkal/dag. Til samanburðar var meðalorkuþörf samkæmt ESPEN ráðleggingum 2105 (± 304) kkal/dag. Meðal próteinþörf var 101 (± 14.6) grömm/dag. Meðal orkuinntaka var 1512 kkal og 66 grömm prótein á dag (næring um munn og viðbótarnæring), þar af var meðal orkuinntaka um munn 1021 kkal og 44 grömm prótein á dag. Ályktun: Orku- og próteininntaka var hæst hjá sjúklingum sem fengu blöndu af næringu um munn og sondunæringu og minnst hjá sjúklingum sem nærðust eingöngu um munn. Þörf er á frekari rannsóknum til þess að skilja betur næringarþörf sjúklinga eftir gjörgæslulegu til þess að veita sem besta næringarmeðferð.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mastersverkefni-lokaskil.pdf | 823,18 kB | Lokaður til...15.05.2030 | Heildartexti | ||
20240523T081325.pdf | 375,51 kB | Lokaður | Yfirlýsing |