Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47335
Bakgrunnur: Erlendar rannsóknir hafa gefið til kynna að tíðni inngripa og fylgikvilla í fæðingum meðal kvenna án áhættuþátta sé hærri á þverfræðilegum fæðingardeildum en á ljósmæðrastýrðum einingum eða í heimafæðingum. Hlutverk ljósmæðra snýr að því að styðja við, aðstoða og fræða konur í fæðingu til þess að stuðla að eðlilegu fæðingarferli. Með því er hægt að minnka líkur á inngripum og standa þannig vörð um lífeðlisfræðilegt ferli fæðingar. Árið 2018 var sett fram heilsufarsflokkunarkerfi á fæðingarvakt Landspítala sem gefur starfsfólki færi á að greina ólíkar þjónustuþarfir kvenna út frá heilsufari og áhættu. Fyrri rannsóknir staðfesta mikilvægi frekari rannsókna á því hvernig þjónustu konur án áhættuþátta fá og hvernig þeim farnast á þverfræðilegum fæðingardeildum, eins og á fæðingarvaktinni á Landspítala. Tilgangur og markmið: Markmið rannsóknarinnar var að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: Hverjar eru ástæður endurflokkunar hjá konum sem teljast án áhættuþátta við komu á fæðingarvakt? Og hverjir eru mögulegir forspárþættir endurflokkunar hjá konum sem teljast án áhættuþátta við komu á fæðingarvakt? Tilgangur rannsóknarinnar er að auka þekkingu á ástæðum og forspárþáttum endurflokkunar þar sem það getur skapað grundvöll fyrir markvissari þróun fæðingarþjónustu.
Aðferð: Rannsóknin er tilfella-viðmiðarannsókn þar sem unnið var með gögn úr rafrænni fæðingarskráningu og heilsugátt Landspítala um allar konur sem fæddu á fæðingarvakt Landspítala 9. maí 2017 – 8. maí 2018 og voru án áhættuþátta við komu, alls 1727 konur. Lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði var notuð við úrvinnslu gagna. Notast var við tölfræðiforritið SPSS til þess að greina gögnin með kí-kvaðratprófi, t-prófi og aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Niðurstöður gefa til kynna að algengustu ástæður endurflokkunar séu utanbastsdeyfing, framköllun fæðingar og blæðing eftir fæðingu og að ýmsar bakgrunnsbreytur kvenna séu ólíkar í hópnum sem endurflokkaðist, miðað við hópinn sem endurflokkaðist ekki í fæðingarferlinu. Þegar leiðrétt var fyrir áhrifum bakgrunnsbreyta á hver aðra í aðhvarsfgreiningu kom í ljós að hár líkamsþyngdarstuðull, meðgöngulengd nálægt 37 eða 42 vikum, aukin þyngd barns og búseta utan höfuðborgarsvæðisins tengdust auknum líkum á endurflokkun.
Ályktanir: Ný þekking getur nýst til að styðja við frekari þróun þjónustu á fæðingarvakt Landspítala og gefið auknar upplýsingar fyrir fæðingarþjónustu utan sjúkrahúsa. Þekking á þáttum sem breyta þjónustuþörf kvenna og kalla á flutning á hærra þjónustustigi getur skapað grundvöll fyrir markvissari þróun á þeirri þjónustu sem er veitt í hverju tilfelli fyrir sig.
Lykilorð: áhætta, heilsufarsflokkun, endurflokkun, forspárþættir, þverfræðileg fæðingardeild.
Background: Recent studies have shown that the frequency of interventions and complications among low-risk women is higher in interdisciplinary obstetric units than in midwifery-led units or in home births. The role of midwifes is to support, assist and inform women during childbirth to promote normal birth. By doing so, it is possible to reduce the likelihood of interventions and thus support the physiological processes of birth. A health and risk classification system was introduced in 2018 in the birth unit of the National University Hospital of Iceland to give healthcare workers opportunity to identify the different service needs of women based on their health status and risk. Previous studies show the importance of further research on what kind of service low-risk women receive and how they fare in interdisciplinary maternity units. Aim and purpose: The aim of this study was to answer the following research questions: What are the reasons for reclassification among women who are considered low-risk when they arrive at the birth unit? And what are the possible predictors of reclassification in women who are considered low-risk when they arrive at the birth unit? The purpose of this study is to increase knowledge of the reasons and predictors of reclassification, as it can create a basis for further development of maternity service at the National University Hospital of Iceland. Methods: This is a case-control study on data from the Icelandic Birth Registry and the database of the National University Hospital on all women who gave birth in the hospital birth unit in 9th of May 2017 – 8th of May 2018 and were low-risk on arrival, a total of 1727 women. Descriptive and inferential statistics were used for data processing. The statistical program SPSS was used to analyze the data with chi-square tests, t-test and regression analysis.
Findings: Results indicate that the most common reasons for reclassification are epidural anesthesia, induction of labour and postpartum bleeding, and that various background variables differ in the reclassified group of women, compared to the non-reclassified group. When correlations between individual background variables were accounted for in regression analysis, correlation was detected between high body mass index, gestational age close to 37 or 42 weeks, increased newborn‘s weight, rural residence and increased likelihood of reclassification.
Conclusion: New knowledge can be used to support further development at Landspítali as well as provide additional information for maternity services outside hospitals. Knowledge of factors that change women‘s service needs and call for a transfer to a higher level of service can create a foundation for a more targeted development of the services that are provided in each individual case.
Keywords: risk, health and risk classification, reclassification, predictors, interdisciplinary birth unit.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
M.Sc. Ína Sigrún Rúnarsdóttir. Þegar eðlileg fæðing verður áhættufæðing. Lokaskil..pdf | 701,85 kB | Lokaður til...24.05.2029 | Heildartexti | ||
Skemman_yfirlysing (1).pdf | 299,26 kB | Lokaður | Yfirlýsing |