Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/47454
Bakgrunnur: Brjóstamjólk er talin vera æskilegasta næringin fyrir nýbura þar sem hún er sérstaklega hönnuð fyrir barnið og næringarþarfir þess. Samt sem áður benda rannsóknir til þess að margir hraustir nýburar fái ábót með þurrmjólk á fyrstu dögum ævinnar. Þurrmjólk er ekki talin hafa sama heilsufarslega ávinning fyrir ungbörn og brjóstamjólk, ásamt því að notkun hennar sem ábót er talin hafa neikvæð áhrif á lengd brjóstagjafar og eykur þannig líkurnar á að brjóstagjöf sé hætt fyrr en ella. Engar upplýsingar eru til um tíðni og ástæður ábótagjafa innan sængurlegudeilda hér á landi.
Tilgangur: Markmið rannsóknarinnar var að taka saman tíðni ábótagjafa meðal nýbura á sængurlegudeild Landspítala, ásamt því að skoða ástæður þess að nýburum á deildinni séu gefnar ábótagjafir án læknisfræðilegra ábendinga.
Aðferð: Rannsóknin er lýsandi þversniðsrannsókn. Notast var við skráð gögn um ábótagjafir á sængurlegudeild úr gagnasafni Landspítala. Gögnin voru skráð í sjúkraskrá nýbura með ákveðnu skráningarformi sem innleitt var í apríl 2023. Úrtakið var 124 nýburar sem höfðu fengið skráningu um ábótagjafir á sængurlegudeildinni á tímabilinu 26. apríl 2023 til 12. desember 2023. Lýsandi tölfræði og marktektarprófið kí-kvaðrat voru notuð við gagnaúrvinnslu.
Niðurstöður: Af 1002 nýburum sem lögðust inn á sængurlegudeild Landspítala á tímabilinu voru skráðar ábótagjafir hjá 12,4% (n = 124). Af þeim 124 nýburum sem fengu skráningu um ábótagjafir voru 38,7% sem fengu ábótagjafir án læknisfræðilegra ábendinga. Algengasta skráða ástæðan fyrir því að nýburum var gefin ábótagjöf án læknisfræðilegra ábendinga var ósk móður, eða í 40,5% tilfella. Gögnin benda þó einnig til þess að skráningu ábótagjafa hafi verið töluvert ábótavant, sérstaklega yfir sumarmánuðina júlí og ágúst.
Ályktanir: Mikilvægt er fyrir ljósmæður að þekkja hvaða þættir það eru sem auka líkur og hafa áhrif á ákvörðun foreldra um að gefa barni sínu ábótagjafir með þurrmjólk fyrstu dagana eftir fæðingu. Með því geta þær betur veitt viðeigandi fræðslu um upphaf brjóstagjafar og ábótagjafir og þannig stutt við upplýst val fjölskyldunnar varðandi næringargjöf barna þeirra. Rannsóknin dregur fram mikilvægi þekkingar heilbrigðisstarfsfólks á brjóstagjöf og gefur til kynna þörf fyrir samræmdar leiðbeiningar um brjóstagjöf innan heilbrigðisstofnana. Þörf er á frekari rannsóknum um efnið.
Lykilorð: Ábótagjöf, sængurlegudeild, nýburi, þurrmjólk, brjóstagjöf
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Ábótagjafir meðal nýbura á sængurlegudeild Landspítala - HHS.pdf | 1.89 MB | Locked Until...2026/06/15 | Complete Text | ||
Skemman yfirlýsing - HHS.pdf | 675.14 kB | Locked | Declaration of Access |