Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47456
Inngangur: Nokkuð hefur verið rannsakað um orsakir og einkenni ofspennu í grindarbotni kvenna, sem frá árinu 2013 hefur meðal annars fengið greiningarheitið genito-pelvic/pain penetration disorder (GPPPD). Hins vegar er vöntun á fleiri gæðarannsóknum um efnið og betri yfirsýn yfir vandann. Upplifun kvenna af vandanum og þeirri heilbrigðisþjónustu sem þær fá hefur einnig ekki verið rannsökuð.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar er að (1) auka skilning sjúkraþjálfara og annars heilbrigðisstarfsfólks á einkennum og orsökum sem tengjast ofstarfsemi í grindarbotni og (2) að veita þeim betri innsýn í þá heilbrigðisþjónustu sem þessi hópur fær hér á landi.
Aðferð: Eigindleg rannsókn þar sem tekin voru hálfstöðluð eigindleg viðtöl við átta konur sem uppfylltu greiningarskilmerki um GPPPD og voru eða höfðu verið í meðferð hjá sérhæfðum sjúkraþjálfara í kvenheilsu vegna þess. Unnið var úr gögnum með þemagreiningu en auk þess var hluti af niðurstöðum umbreytt yfir á megindlegt form.
Niðurstöður: Gagnagreining á fyrri rannsóknarspurningu leiddi í ljós tvö þemu: (1) einkenni og (2) orsakir. Algengustu einkennin voru samfaraverkir eða spennu upplifun við innsetningu um leggöng ásamt verkjum í nærliggjandi stoðkerfi. Algengustu orsakir, að mati þátttakenda, voru verkjasjúkdómar í grindar- og kviðarholi (62,5%), streita (50%) og kynferðisofbeldi (38%). Greining á seinni rannsóknarspurningu skiptist upp í fimm þemu: (1) heilbrigðisstarfsfólk sem leitað er til, (2) jákvæð upplifun af heilbrigðisþjónustu, (3) neikvæð upplifun af heilbrigðisþjónustu, (4) neikvæðar afleiðingar og (5) fræðslutengdir samfélagsmiðlar og eigin þekking. Neikvæð upplifun á heilbrigðisþjónustu var meira áberandi en jákvæð upplifun og einkenndist hún meðal annars af skorti á þekkingu á kvenheilsu og því að skjólstæðingum var ekki vísað áfram.
Ályktun: Sjúkdómsmynd ofspennu í grindarbotni er margþætt og flókin. Einkenni tengjast nokkrum líffærakerfum og orsakir eru oftast fleiri en ein í hverju tilfelli. Greiningartími virðist í mörgum tilfellum langur, þar sem skjólstæðingum er gjarnan vísað seint til sérhæfðra sjúkraþjálfara í kvenheilsu. Þetta hefur neikvæð áhrif á líðan kvennanna. Þörf er á meiri opinberri umræðu um vandann, auknu þverfaglegu samstarfi, ásamt kerfisbundnu eftirliti með grindarbotnseinkennum kvenna í mæðravernd og eftir fæðingu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mastersritgerd_vor 2024_lokautg_DBE.pdf | 1.36 MB | Lokaður til...01.06.2025 | Heildartexti | ||
Skemman_yfirlysing_DBE.pdf | 298.5 kB | Lokaður | Yfirlýsing |