Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47502
Influencing factors and genetic parameters for longevity in Icelandic ewes
Ending áa er mikilvæg fyrir sauðfjárbændur þar sem kostnaður er við öra endurnýjun gripa. Aðferðir til að bæta endingu, eða kynbæta fyrir henni hafa lítið verið skoðaðar fyrir íslenskar ær. Markmið þessa verkefnis var að meta áhrif umhverfisþátta á endingu áa ásamt því að meta erfðastuðla og reikna arfgengi fyrir eiginleikann. Þá var skoðað hvort raunhæft væri að reikna kynbótamat fyrir endingu.
Í verkefninu voru notuð gögn úr skýrsluhaldskerfinu Fjárvís. Eftir hreinsun gagnanna innihélt gagnasafnið skráningar fyrir 386.690 ær frá alls 277 bæjum. Þessi gögn voru notuð til þess að reikna erfðastuðla og arfgengi fyrir endingu með einstaklingslíkani. Auk þess bar reiknuð erfðafylgni milli endingareiginleika. Metin voru áhrif þess hvað ærnar annars vegar áttu mörg lömb og hins vegar hvað þær gengu með mörg lömb. Reiknaður var meðaldánaraldur ánna í gagnasafninu ásamt því að skoðað hvaða ástæður dauða voru algengastar og reikna meðalaldurinn fyrir hverja þeirra.
Niðurstöður leiddu í ljós að ending er arfgengur eiginleiki. Arfgengi var metið 0,078 með staðalskekkjunni 0,004. Há erfðafylgni fékkst milli þess hversu líklegt er að ærnar lifi af fyrstu ár ævinnar og heildarendingar. Meðaldánaraldur ánna var 4,91 ár, algengasta dánarorsökin var að ánum var slátrað en þar á eftir að ær vantaði af fjalli sem var nokkuð stórt hlutfall. Hve mörg lömb ærnar gengu með að sumri hafði meiri áhrif á endingu en fjöldi fæddra lamba. Fjöldi lamba sem ærnar gengu með veturgamlar hafði nokkur áhrif. Veturgamlar ær sem ekki gengu með lamb lifðu að jafnaði styst á meðan ær sem gengu með eitt lamb lifðu lengst.
Möguleiki væri á að nota hluta þeirra niðurstaðna sem fengust í þessu verkefni við útreikning á kynbótamati fyrir endingu íslenskra áa. Þá myndu nánari rannsóknir á eiginleikanum og öðrum áhrifaþáttum geta gefið gagnlegar upplýsingar sem nýta mætti við útreikninga og mögulega aukið öryggi kynbótamats.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| BS-ritgerd_Eydis_Johannesdottir.pdf | 510,43 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |