Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47530
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að náttúrulegt umhverfi hefur jákvæð áhrif á heilsu fólks og því hafa tengsl við náttúruna verið mikilvægur þáttur í hönnun og skipulagi þéttbýlis. Í þéttbýli taka götur upp 25-30% af rými og um 80% af almenningsrými og því þarf að huga vel að því hvernig göturými eru hönnuð.
Markmið verkefnisins er að nýta áherslur innan umhverfissálfræðinnar til að skapa göturými sem stuðlar að sálfræðilegri endurheimt og vellíðan. Skoðað er hvaða þættir það eru sem auka vellíðan og ýta undir mannlíf í göturýmum.
Gerð var spurningakönnun á upplifun fólks á sex vistgötum í Reykjavík.Niðurstöðurnar veita innsýn inn í þarfir, væntingar og langanir fólks og mikilvægt er að huga að þeim þáttum til að fólk nýti þessi mikilvægu svæði.
Hönnun vistgatna felur í sér manneskjulega nálgun, þar sem lögð er áhersla á gæði umhverfis sem ýtir undir sálfræðilega endurheimt, eykur aðdráttarafl og hvetur fólk til dvalar. Minni hraði í göturými gefur fólki tækifæri til að skilja, kanna og meðtaka umhverfið bæði í heild sinni sem og einstaka hluta þess, sem þá hvetur til fjölbreyttra athafna og styrkir tengsl milli fólks.
Valið var að endurhanna Nönnugötu í Reykjavík vegna staðsetningar og höfundi fannst hún eiga möguleika á að verða góð vistgata. Mörg ólík svæði eru að finna í götunni og var því reynt að gera þau svæði áhugaverðari til að auka aðdráttarafl.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Stefanía_BS.pdf | 26,36 MB | Opinn | Skoða/Opna |