is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Náttúra og skógur > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47569

Titill: 
  • Uppgræðsla ofanflóðavarna: Skipulag, framkvæmd og árangur við endurheimt staðargróðurs
  • Titill er á ensku Reclamation of snow avalanche protections: Planning, implementation and restoration success
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Ofanflóðavarnir eru víða taldar nauðsynlegar til að verja byggðir en oft er um að ræða umfangsmiklar framkvæmdir sem geta raskað náttúrulegu gróðurfari. Bygging þeirra getur haft áhrif á líffræðilega fjölbreytni sem er mikilvæg fyrir virkni vistkerfa og undirstaða margvíslegrar þjónustu þeirra. Tilgangur þessa verkefnis var að varpa ljósi á framkvæmd uppgræðslu ofanflóðavarna á Vestfjörðum, þ.e. undirbúning, innleiðingu, árangur og eftirfylgni, með það að leiðarljósi að greina vankanta á ferlinu sem komið geta í veg fyrir að uppgræðslumarkmið náist. Gagnaöflunin náði til átta ofanflóðaframkvæmda þar sem byggðir voru þvergarðar og leiðigarðar. Úr greiningu á þeim voru valdar framkvæmdir á tveimur stöðum, í Bolungarvík og undir Kubba á Ísafirði, til að kanna endurheimt staðargróðurs og möguleg afdrif sáðtegunda, átta árum eftir að uppgræðsla hófst. Á hvorum stað voru gerðar gróðurfarsmælingar á þremur mismunandi svæðum: á vörnunum, í fjallshlíðinni bak við varnirnar og á óröskuðu viðmiðunarsvæði. Niðurstöðurnar voru settar í samhengi við staðla alþjóðlegu vistheimtarsamtakanna, Society for Ecological Restoration (SER) og aðrar rannsóknir sem tengjast vistheimt, árangursmati og eftirliti.
    Ofanflóðaframkvæmdirnar á Vestfjörðum sem gagnaöflunin náði yfir voru misstórar og fyrir þær allar var gerð áætlun um uppgræðslu með grasfræi yfirleitt í bland við hvítsmára og stundum birki. Í áætlunum voru sett fram uppgræðslumarkmið sem voru að mörgu leyti skýr og metnaðarfull. Í flestum tilfellum voru lagðar til einhverjar aðgerðir til að endurheimta staðargróður sem þó voru ekki hluti af meginmarkmiðum. Niðurstöðurnar sýndu einhverja hnökra á flestum stigum framkvæmdanna:1) markmið um uppgræðslu skiluðu sér illa í innleiðingu framkvæmdanna, 2) þeim var ekki nákvæmlega fylgt eftir og 3) eftirfylgni, inngrip og vöktun var ekki notuð til leiðréttandi aðgerða til að uppfylla sett markmið. Ekkert virðist hafa gert til að sporna við dreifingu ágengra tegunda. Að því er séð verður var samráð við hagaðila í verkefnisferlinum takmarkað.
    Tegundasamsetning gróðurs á framkvæmdasvæðunum (varnir, bak við varnir) undir Kubba og í Bolungarvík átta árum eftir að uppgræðsla hófst var breytileg og almennt mjög ólík staðargróðri á viðmiðunarsvæðunum. Tegundaauðgi æðplöntutegunda var mest á viðmiðunarsvæðum en minnst á vörnunum sjálfum. Á framkvæmdarsvæðunum var þekja sáðgrasa enn mikil en þekja annarra grasa mjög lítil. Mosar voru farnir að nema land en þar fundust engir smárunnar og ekki heldur tré eða runnar, nema þau sem gróðursett voru á framkvæmdasvæðinu á Ísafirði. Þekja blómjurta var frekar mikil þar sem alaskalúpína var mjög útbreidd, sérstaklega í Bolungarvík. Aðrir tegundahópar höfðu mjög litla þekju. Þessar niðurstöður benda til þess að endurheimt náttúrulegs gróðurs á framkvæmdarsvæðunum hafi verið afar takmörkuð og sáðgrös enn ríkjandi. Það getur stafað af ýmsum orsökum, svo sem tiltölulega stuttum tíma frá sáningu, vali á uppgræðsluaðferðum og útbreiðslu alaskalúpínu sem ekki hefur verið haft hemil á.
    Niðurstöður verkefnisins sýndu að uppgræðsla framkvæmdasvæðanna hefði ekki stuðlað að endurheimt líffræðilegar fjölbreytni, eins og lög um náttúruvernd (nr. 60/2013) kveða á um. Þar sást einnig að skortur var á vöktun og árangursmati við framkvæmdirnar sem líklega hefði getað skilað betri árangri í uppgræðslunni, þar sem hægt hefði verið að stíga inn í framvinduferlið og m.a. að halda ágengum tegundum í skefjum. Mikilvægt er að markmiðasetning varðandi endurheimt staðargróðurs og aðra uppgræðslu og vöktun eigi sér stað við frumhönnun og að þeim markmiðum sé fylgt eftir í gegnum undirbúnings-, framkvæmdar- og eftirlitsferlið með ástandsmati og viðbótaraðgerðum.
    Lykilorð: gróður, endurheimt, vistheimt, staðargróður, árangur, innfluttar tegundir, uppgræðsla, mótvægisaðgerðir, markmið, undirbúningur, samanburður, eftirfylgni, árangursmat, Vestfirðir, ofanflóðavarnir, framkvæmdir, eftirlit.

  • Útdráttur er á ensku

    Avalanche guards, i.e. large structures built in order to reduce the risk of avalanches reaching populated areas, are essential to protect urban areas under threat of such natural disasters. These guards are often enormous earthen structures that can cause severe damage to natural ecosystems, often reducing the biological diversity essential for ecosystem function and services. The goal of this project was to assess the process of revegetation of avalanche guard construction sites in the Westfjords, i.e. preparation, implementation, results, and follow-up, with the main aim of identifying factors that could negatively influence the revegetation process. Of the eight avalanche guard projects assessed, two projects or sites were evaluated for their impact on ecosystems and restoration of native vegetation eight years post-construction, i.e., guards in Bolungarvík and below Kubbi in Ísafjörður. Each site was divided into three parts where vegetation assessments were carried out. This includes areas in the front of the guard structures, on the mountain behind the guards and undisturbed reference areas. Results were put into the context of international standards for ecological restoration, particularly focusing on the principles and standards published by the Society for Ecological Restoration (SER).
    The assessed avalanche guard projects in the Westfjords varied in size and were in all cases, sown with grasses, sometimes mixed with white clover or birch seed. In most cases, additional goals included restoring native vegetation, however, this was not staded as the main goal of the reclamation. The original goals of the revegetation process were in many ways clear and ambitious. However, the results revealed issues at most stages, including: 1) reclamation targets were poorly proposed or not involved in implementation phase; 2) the reclamation aims and objectives were not strictly followed; and 3) monitoring and evaluation was not used as a bases for corrective actions. Originals plans to follow-up, intervene and monitor, in order to achieve the goals set in the revegetation plans, were not followed, and it seems that nothing was done to stop the spread of invasive species. The involvement of stakeholders seems to have been lacking in all project processes as well.
    The species composition on the avalanche guard structures (guard, behind guard) at the Ísafjörður and in Bolungarvík site eight years after revegetation varied greatly and was generally very different from the reference areas. Species richness of vascular plants was the highest in the reference areas and lowest on the guards. Of the species groups, the cover of grasses, especially the seeded grass species, was high, while the cover of native grasses was very low. Mosses had started to colonize the construction areas but, neither shrubs, trees nor bushes were found in any location, except those who were planted in Ísafjörður. The coverage of forbs was relatively high, with lupin being very widespread, especially in the Bolungarvík site. Other species groups had very low cover. These results therefore indicate limited restoration of natural vegetation in the construction areas and a high abundance of seeded grasses. This poor recovery may be attributed to the relatively short time since sowing (eight years), the choice of revegetation methods, as well as a lack of intervention to prevent the spread of invasive species.
    The result of this study show that revegetation in the construction areas in Bolungarvík and Ísafjörður had not contributed to the recovery of biological diversity, as Icelandic laws of natural conservation stipulate (law no. 60/2013). It is highly likely that monitoring and evaluation could have yielded better result in terms of revegetation and, may have been instrumental in preventing the spread of invasive species. Setting clear goals regarding the restoration of natural vegetation and other revegetation and monitoring is essential and should take place during the planning and the goals, are kept strongly in mind and revisited often during the preparation, implementation and monitoring process.
    Keywords: vegetation, ecological restoration, restoration success, native species, success, alien species, revegetation, mitigation measures, goals, preparation, comparison, monitoring, adaptive management, Westfjords, Avalanche guards, construction, inspections.

Samþykkt: 
  • 6.6.2024
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/47569


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ms ritgerð_Hulda_Birna_Lokaskjal.pdf3,29 MBOpinnPDFSkoða/Opna