is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn í Reykjavík > Samfélagssvið / School of Social Sciences > BSc Viðskipta- og hagfræðideild (og BSc sálfræði -2019) / Department of Business and Economics >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47576

Titill: 
  • Þróun rafbifreiða og staða þeirra á Íslandi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Hlýnun jarðar er nú viðurkennd sem mikilvægt vandamál sem brýnt er að leysa. Afleiðingarnar hennar eru meðal annars bráðnum á jökla, súrnun sjávar, flóð og miklar sveiflur í veðurfari. Neikvæð áhrif koltvíoxíðs á umhverfið eru þar stór þáttur og nú eru flestir meðvitaðir um nauðsyn á því að draga sem mest úr losun þess út í andrúmsloftið.
    Kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi hafa orðið þekkt hugtök síðustu árin. Ísland hefur skuldbundið sig til að verða kolefnishlutlaust land fyrir árið 2040 ásamt Noregi og löndum Evrópusambandsins. Mikilvægur þáttur í því verkefni er að minnka eða stöðva útblástur koltvíoxíðs frá ökutækjum. Hluti af þessu átaki eru áform um að setja bann við innflutningi til landsins á bifreiðum sem nýta jarðefnaeldsneyti árið 2030. Evrópusambandið miðar hins vegar við árið 2035.
    Íslendingar hafa verið mjög framarlega í innleiðingu rafbifreiða og verið með næst hæsta hlutfall í skráningu á nýjum rafbifreiðum í heiminum á eftir Noregi eða um 50%. Þar er mikill kostur að raforka á Íslandi er metin að fullu umhverfisvæn. Hún er einnig hlutfallslega ódýr hér á landi miðað við jarðefnaeldsneyti.
    Grænir styrkir, skattar og ívilnanir við innkaup og rekstur á nýjum rafbifreiðum hafa verið mikilvægir þættir í aðgerðum til þess að fjölga rafbifreiðum hér á landi. Þannig var rafbifreið sem kostaði 5 mkr. komin til landsins á síðasta ári með um 1.3 mkr. lægra verð eftir skráningu en bifreið fyrir jarðefnaeldsneyti með sama innkaupsverð. Einnig var rekstrarkostnaður mun lægri t.d. vegna niðurfellingar veggjalda á rafbifreiðum og ódýrara eldsneytis.
    Um síðustu áramót varð hins vegar sú breyting á stöðu rafbifreiða að áhrif grænu aðgerðanna minnkuðu. Lögð voru á vörugjöld og endurgreiðsla gjalda við innflutning lækkaði. Með því hækkaði framangreind rafbifreið um 9,4%. Endurgreiðslan féll síðan niður við 10 mkr innkaupsverð. Einnig var lagt veggjald á rafbifreiðar sem olli töluverði umræðu vegna aðferðar við innheimtu. Vörugjöld voru einnig aukin á bifreiðar sem nýta jarðefnaeldsneyti en um það var minna talað. Vitneskjan um þessa væntanlegu breytingu jók verulega innflutning hreinna rafbifreiða á árinu 2023 en dró að sama skapi úr innflutningi tengiltvinn bifreiða sem einnig nýta rafmagn enn aðeins að hluta. Samanlögð aukning þessa flokks varð þannig aðeins um 4% á árinu þrátt fyrir yfirvofandi verðhækkun. Bensín- og dísilbifreiðar héldu sínum hlut nær óbreyttum. Það er því eins og væntanleg lækkun grænu styrkjanna og tengdra aðgerða hefðu að mestu fært kaupendur milli flokka rafbifreiða en flutt lítið sem ekkert á milli aðalflokka eldsneytis. Þetta kemur á óvart og virðist benda til að umhverfismál séu ekki aðalatriði í bifreiðavali.
    Stuttur tími er síðan þessi breyting tók gildi en niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að hún muni ekki hafa stór áhrif á hlutfall nýrra rafbifreiða í innflutningi nema með skammtíma aukningu fyrir breytinguna og síðan tímabundinni minnkun um tíma eftir hana. Breytingin og umræða um hana hefur þó sennilega frekar neikvæð en jákvæð almenn áhrif í umhverfismálum. Þannig er hætt er við að fólk telji áhuga yfirvalda á umhverfismálum fara minnkandi og almenna nauðsyn aðgerða minni en áður.
    Þegar mengun frá bifreiðum er skoðuð er einnig nauðsynlegt að meta áhrif þeirra á nærumhverfi sitt. Þannig hafa ýmis lönd sett há græn gjöld eða bann á notkun bifreiða knúnum jarðefnaeldsneyti inni í stórborgum vegna mengunar. Þetta flýtir einnig breytingunni yfir í rafbifreiðar á þeim stöðum og á hugsanlega eftir að koma í framkvæmd hér á landi.
    Margt er að gerast í heimi rafbifreiða. Þannig eykst stöðugt afkastageta rafgeymanna og möguleikar á hraðari hleðslu. Verð er einnig sagt fara lækkandi með aukinni þróun. Þetta styður að hlutdeild rafbifreiða vaxi á næstu árum og rafbifreiðar verði ráðandi í innflutningi fólksbifreiða árið 2030 eins og stefnt er að. Sennilega verða þó undantekningar á heildarbanni fyrst um sinn svo sem fyrir bifreiðar ætlaðar til nota á hálendinu og utan vega hjá björgunarsveitum og ferðaþjónustuaðilum. Einnig er spurning hvernig verður farið með tengiltvinn bifreiðar í þessum aðgerðum. Þær nota jarðefnaeldsneyti að meðaltali í um 70% af akstrinum skv. losunarstuðlum Umhverfisstofnunar en eru samt venjulega taldar í flokki rafbifreiða.

Samþykkt: 
  • 10.6.2024
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/47576


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Þróun rafbifreiða og staða þeirra á Íslandi.pdf989,89 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna