Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47611
Í þessari ritgerð er uppbygging íslenska lífeyriskerfisins skoðuð og verður rannsókn þessari í kjölfarið beint að áhrifum aukinna lífslíka og hærri meðalævilengd á undanförnum áratugum á íslensku lífeyrissjóðina. Með nýjum lífslíkutöflum er verið að hverfa frá fyrri útreikningsaðferð lífeyrissjóðanna þar sem dánartíðni fyrir alla árganga var sú sama óháð fæðingarári.
Lítið hefur verið skrifað af íslensku fræðilegu efni tengt viðfangsefni ritgerðarinnar. Lífeyrissjóðirnir á Íslandi eru bæði margir og ólíkir að uppbyggingu með tilliti til stærðar, samsetningar og aldurs sjóðfélaga. Hver lífeyrissjóður fyrir sig hefur valið og ákveðið sína eigin leið í mótvægisaðgerðum tengt hækkandi lífaldri og auknum lífslíkum. Sjóðirnir hafa því hvorki haft opinberar eða fræðilegar leiðbeiningar til að styðjast við í sínum aðgerðum.
Í ritgerðinni verða skoðaðar fjórar erlendar, ritrýndar og fræðilegar greinar tengt áhrifum hækkandi lífaldurs á lífeyriskerfi í nokkrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum, ásamt því skoða skýrslu Benedikts Jóhannessonar tengt lífeyriskerfinu á Íslandi. Löndin hafa farið sínar eigin leiðir við að innleiða það sem er talið hentugasta kerfið á hverjum stað en útfærslurnar verða seint taldar fullkomnar því margar ófyrirséðar breytur hafa áhrif á endanlegar niðurstöður í framtíðinni. Markmið þessara útfærslna er hins vegar að leitast við að lágmarka sveiflur í lífeyrisréttindum í framtíðinni. Verður fjallað um hvernig hækkun lífeyristökualdurs, með auknum lífslíkum, hefur reynst góð leið til þess að takast á við lýðfræðilegar breytingar. Slíkt geti haldið lífeyriskerfum bæði fjárhagslega stöðugum og sjálfbærum til lengri tíma.
Rannsakað verður hvernig Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Birta lífeyrissjóður brugðust við breyttum aðstæðum með ólíkum hætti í sínum mótvægisaðgerðum í kjölfarið á uppfærðum lífslíkutöflum. Birta kaus að fara aðra leið en Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Hjá Birtu lífeyrissjóði tóku gildi nýjar réttindatöflur fyrir sjóðfélaga með aðgerðum sem náðu eingöngu til framtíðarávinnslu og höfðu ekki áhrif á áfallin réttindi. Við síðustu breytingu réttindataflna hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna voru áunnin lífeyrisréttindi lækkuð mismikið eftir aldri sem hafði meðal annars þau áhrif að sjóðnum var stefnt fyrir dómi í kjölfarið.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BSc. ritgerð - Borgþór Örn og Vésteinn Veigar.pdf | 2,1 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |