Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47614
Markmið ritgerðarinnar er að rannsaka áhrif stjórnvalda á kaupgetu fyrstu kaupenda ásamt því að kanna þróun húsnæðismarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar COVID-19. Hækkandi húsnæðisverð og stýrivextir Seðlabankans hafa verið mikið hitamál í samfélaginu síðustu ár. Fjallað verður um hlutverk Seðlabanka Íslands og stjórntækja hans, ásamt þeim þáttum sem hafa hvað mest áhrif á eftirspurnar- og framboðshlið húsnæðismarkaðarins. Rýnt verður í áhrif stýrivaxta, þróun húsnæðisverðs, mismunandi lána- og afborgunarleiðir sem boðið er uppá hér á landi ásamt úrræða stjórnvalda til að bregðast við vaxandi vandamálum ungs fólks til að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Úrræðin sem fjallað verður um í ritgerðinni eru hlutdeildarlán og skattfrjáls úttekt séreignarsparnaðar. Fasteignakaup eru talin vera ein stærsta fjárhagslega ákvörðun á lífsleið einstaklinga og eru margir þættir sem þarf að huga að áður en ferlið hefst. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þegar stýrivextir Seðlabanka Íslands eru lágir, lækka viðskiptabankar útlánsvexti sína og lánsfé verður aðgengilegra. Þegar lántaka er hagstæð verður auðveldara fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markaðinn þar sem greiðslubyrði íbúðalána verða lægri. Við slíkar aðstæður verða breytingar á eftispurn eftir húsnæði og leiðir það til verðhækkana. Hækkun stýrivaxta síðustu ára hefur haft neikvæð áhrif á greiðslugetu en það virðist þó ekki draga úr fjölda fyrstu kaupenda.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BSc ritgerð - Magdalena og Margrét.pdf | 1.46 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |