Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47622
Inngangur: Sarpasjúkdómur í ristli er algengur sjúkdómur á heimsvísu sem oftast er einkennalaus en hluti sjúklinga fær sarpabólgu. Algengi sarpabólgu eykst með hækkandi aldri og nýgengi sjúkdómsins
hefur aukist hjá yngri aldurshópum. Myndgreiningarrannsóknir eru mikilvægar við greiningu sarpabólgu. TS kviðarhol með skuggaefni er talin vera besta rannsóknin til greiningar en henni fylgir jónandi geislun. Sums staðar í Evrópu er ómun fyrsta val á myndgreiningarrannsókn en sú rannsókn hefur enga jónandi
geislun í för með sér. Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort ómun gæti nýst til greiningar á sarpabólgu sem fyrsta val á myndgreiningarrannsókn. Farvegur sjúklinga sem sendir voru frá bráðamóttöku LSH í TS kviðarhol, með eða án skuggaefnis, var borinn saman við erlendar leiðbeiningar um myndgreiningu vegna gruns um sarpabólgu. Lagt var mat á hversu mikið geislaálag væri hægt að spara sjúklingum ef farið væri eftir erlendu leiðbeiningunum og ómun væri nýtt til greiningar á sarpabólgu hérlendis. Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggð megindleg rannsókn. Gögn voru sótt í myndgeymslu Agfa og rafræna sjúkraskrá Heilsugáttar á Landspítala. Þýði rannsóknarinnar voru allir sem sendir voru frá bráðamóttöku LSH í TS kviðarhol, með eða án skuggaefnis, á tímabilinu 1.janúar-30.apríl 2023 vegna gruns um sarpabólgu. Eftir útilokanir voru 115 sjúklingar í úrtaki sem stóðust kröfur rannsóknarinnar. Reiknað var m.a. mat á geislaálagi og úrtakið mátað inn í erlendar leiðbeiningar um myndgreiningu sarpabólgu.
Niðurstöður: Samkvæmt þýskum leiðbeiningum ættu allir að byrja á ómun en 80% úrtaks ætti að fara í TS kviðarhol með skuggaefni í kjölfarið ef ómun reynist ófullnægjandi. Samkvæmt leiðbeiningum frá St. Antonius spítala í Hollandi ættu 15,65% úrtaksins að byrja á ómun og 84,35% í TS. Samkvæmt leiðbeiningum frá Skurðlæknafélagi Hollands þyrfti 21,74% úrtaks ekki myndgreiningu og 78,26% ættu að byrja í ómun. Meðalgeislaálag TS rannsókna vegna gruns um sarpabólgu var 7,91 mSv.
Ályktun: Flestir sjúklingar með grun um sarpabólgu gætu farið í ómun sem fyrsta val á myndgreiningarrannsókn í samanburði við erlendar leiðbeiningar. Ómun gæti nýst til greiningar á sarpabólgu hér á landi og gæti það haft í för með sér minna geislaálag Íslendinga vegna
læknisfræðilegrar geislunar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Birta.Ketilsdottir_Diplomaritgerd.lokaskil.pdf | 3.3 MB | Lokaður til...01.06.2025 | Heildartexti | ||
441380681_7541074949281660_7362434817639362081_n.jpg | 304.63 kB | Lokaður | Yfirlýsing | JPG |