Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47681
Í þessari rannsókn eru til skoðunar vegferðir í tveimur stafrænum verkefnum á Landspítala, annars vegar verkefni við þróun og innleiðingu Landspítalaappsins og hins vegar innleiðingu á lyfjafyrirmælakerfi Cato og lokuðu lyfjaferli á krabbameinsdeild. Tilgangur með rannsókninni er að meta frammistöðu þessara verkefna út frá hugmyndafræði um afburðastjórnun. Eins og orðið gefur til kynna felst afburðastjórnun í því að ná framúrskarandi árangri í gegnum stjórnunaraðferðir. Umfjöllun um afburðastjórnun teygir sig inn á mörg svið stjórnunar, þar á meðal verkefnastjórnun. Samkvæmt módelinu tryggja afburðaverkefni hátt ánægjustig hinna ýmsu hagsmunaaðila. Eitt þeirra viðmiða sem afburðalíkön nota fyrir framúrskarandi árangur í verkefnum er ánægja starfsfólks. Afmörkun þessarar rannsóknar felst í að meta frammistöðu í verkefnunum eingöngu út frá ánægju hagsmunahópsins starfsfólk. Leitast er við að svara rannsóknarspurningunni: Hvernig getur Landspítalinn staðið að þróun og innleiðingu stafrænna lausna svo ferlið og lausnin skili starfsfólki ánægju og virði í anda afburðastjórnunar? Tekin voru viðtöl við átta starfsmenn Landspítala sem hafa innsýn í verkefnin sem til skoðunar eru. Í undirbúningi rannsóknarinnar og gagnaúrvinnslu var stuðst við afburðalíkanið IPMA Project Excellence Model (IPMA PEM). Líkanið var notað til að meta hversu vel stjórnunaraðferðir í verkefnunum fylgdu aðferðafræði módelsins og hver áhrifin væru á ánægju starfsfólks. Spítalinn leggur áherslu á stafræna framþróun, stöðugar umbætur og verkefnastjórnun. Áskoranir við þróun og innleiðingu í viðamiklum stafrænum verkefnum á Landspítala eru margvíslegar því spítalinn er einn stærsti vinnustaður landsins og býr við verulega flókið og umfangsmikið tækniumhverfi. Álag á starfsmenn spítalans er oft á tíðum mikið og starfsumhverfið krefjandi sem gerir starf verkefnastjóra í stafrænum umbótaverkefnum vandasamt. Skortur á tíma starfsfólks getur hindrað framgang verkefnanna og jafnframt hefur stjórnun í verkefnunum ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif á álag og ánægju starfsfólks. Vonast er til þess að hægt verði að nýta niðurstöður rannsóknarinnar til að stuðla að aukinni ánægju starfsfólks í tengslum við þróun og innleiðingu stafrænna lausna á Landspítala. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að fylgni stjórnunaraðferða verkefnanna við aðferðafræði IPMA PEM haldist í hendur við ánægju starfsfólks.
Efnisorð: verkefnastjórnun, afburðastjórnun, IPMA PEM, Landspítali
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni MPM - Í ljósi fræða um afburðastjórnun - Þróun og innleiðing stafrænna lausna á Landspítala.pdf | 1,3 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |