Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47737
Víða um heim er unnið að mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum með því að auka kolefnisbindingu og með því ná til baka hluta af því CO2 sem losaður hefur verið út í andrúmsloftið með bruna jarðefnaeldsneytis og skógareyðingu. Nýskógrækt er ein af þeim aðgerðum sem beitt er til að binda kolefni. Nýlega hafa verið settar fram tilgátur hér á landi um að nýskógrækt á graslendi geti mögulega leitt til minnkunar á kolefnisforða vegna neikvæðra áhrifa á kolefnisforða jarðvegs. Hafa þessar tilgátur byggt á ákveðnum erlendum rannsóknum sem hafa sumar sýnt að kolefnisforði jarðvegs getur mögulega minnkað eða að minnsta kosti ekki aukist í kjölfar nýskógræktar á graslendi. Hér á landi hafa einungis birst tvær rannsóknir á breytingum á heildar kolefnisforða vistkerfisins í kjölfar nýskógræktar á graslendi.
Markmið þessarar rannsóknar var að meta breytingar á jarðvegsbyggingu, jarðvegsefnafræði og kolefnisforðum ofan- og neðanjarðar 50 árum eftir að sitkagreniræktun hófst á graslendi á Reykjum í Ölfusi. Til samanburðar var notað nærliggjandi óbeitt graslendi og einungis horft til efstu 10 cm jarðvegsins.
Helstu niðurstöður voru að það var enginn marktækur munur á rúmþyngd né N% milli landgerðanna, en bæði C/N hlutfall og C% í jarðveginum hækkaði marktækt. Einnig súrnaði yfirborðslag jarðvegsins marktækt í kjölfar nýskógræktarinnar, en náði ekki niður fyrir pH 5 sem er það stig sem viðkvæmustu jarðvegslífverur fara að hljóta skaða af. Heildarkolefnisforði í öllu vistkerfinu var marktækt mun meiri í skóginum og munaði þar mest um aukningu í kolefnisforða í lífmassa ofan- og neðanjarðar, en heildarmagn í jarðvegi jókst einnig marktækt í skóginum. Meðal árleg binding á CO2 í öllu skógarvistkerfinu nam 9,7 t CO2/ha á ári og þar af nam meðal árleg binding í neðanjarðar lífmassa og lífrænu efni í efstu 10 cm jarðvegsins 2,7 t CO2/ha á ári.
Það er annmarki á þessari rannsókn að hún náði einungis niður á 10 cm dýpi í steinefnajarðvegi. Gera þarf fleiri rannsóknir á nýskógrækt á graslendi, þar sem mælingar á kolefnisforðum vistkerfisins ná lengra niður í jarðvegsniðin.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS_Ritgerd_Narfi_Hjartarson_2024_Lokaskjal.pdf | 1,6 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |