Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4778
Rannsókn þessi fjallar um reynslu sex íslenskra atvinnulausra karla, 50 ára og eldri, af atvinnumissi í kjölfar efnahagshruns sem varð á Íslandi haustið 2008. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast dýpri skilning á reynslu karla sem komnir eru á seinni hluta starfsferilsins af atvinnumissi. Sérstaklega er skoðað hvaða áhrif hann hefur á líðan, sjálfsmynd, virkni og fjárhag viðkomandi einstaklinga og hvort menntun þeirra og aðlögunarhæfni hafi áhrif á reynslu þeirra.
Eigindlegar rannsóknaraðferðir voru notaðar og viðtöl tekin í þeim tilgangi að öðlast heildstæða mynd af lífi og aðstæðum þessara sex manna. Fjallað er um margvíslegar afleiðingar atvinnuleysis á þá sem eru án atvinnu. Einnig er umfjöllun um starfsferil viðmælenda. Kenningum um lífslanga starfsferilsþróun og um aðlögunarhæfni á starfsferli er beitt til að greina starfsferil þeirra. Staða eldra fólks á vinnumarkaði og ráðgjöf fyrir það er líka til umfjöllunar.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að það sé þungbær reynsla fyrir þessa menn að missa vinnuna. Þeim finnst þeim hafa verið ýtt til hliðar í samfélaginu og þeir upplifa skömm við þessar aðstæður. Atvinnuleysið hefur áhrif á fjárhag þeirra og lífshætti almennt. Þeir vilja vera virkir þátttakendur í samfélaginu áfram og eru ekki tilbúnir að fara af vinnumarkaði. Allir hafa þeir einhverja von um að komast aftur í vinnu, vonin er þó misjafnlega mikil hjá þeim.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Vinnan göfgar manninn.pdf | 317,39 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |