is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4783

Titill: 
 • Riftun á ráðstöfun þrotamanns
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Í ritgerð þessari, sem er lokaáfangi af meistaranámi mínu í við lagadeild Háskóla Íslands, er ætlunin að gera grein fyrir riftunarreglum 134., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um
  gjaldþrotaskipti o.fl. (framvegis nefnt „gþl.“). Í framkvæmd hefur reynt þó nokkuð á XX. kafla laganna og sér í lagi á ákvæði kaflans um riftun gjafagerninga samkvæmt 131. gr. og þann þátt 134. gr. sem varðar greiðslu á skuld með óvenjulegum greiðslueyri, en minna hefur reynt á önnur sjálfstæð skilyrði ákvæðisins er heimla riftun.
  Á þeim viðsjárverðu tímum sem uppi eru í efnahagslífi þjóðarinnar, í kjölfar þeirra atburða sem urðu á íslenskum fjármálamörkuðum haustið 2008, hefur orðið gríðarleg fjölgun á gjaldþrotum, hvort sem um er að ræða félög eða einstaklinga. Er ekki séð fyrir endann á þessari þróun á komandi misserum. Vegna þeirrar gríðarlegu fjölgunar á gjaldþrotum mun að öllum líkindum reyna enn meira en áður á XX. kafla gþl. og sér í lagi á þær riftunarreglur sem ætlunin er að gera grein fyrir í ritgerðinni, þar sem reynslan sýnir að einstaklingar jafnt sem lögaðilar hafa fallið í þá freistni að koma eignum undan í aðdraganda gjaldþrots og þannig valdið kröfuhöfum tilsvarandi tjóni.
  Uppbygging ritgerðarinnar verður með þeim hætti að í 2. kafla verður farið yfir nokkur almenn atriði gjaldþrotaskiptaréttar. Er tilgangur yfirferðarinnar að veita lesanda yfirsýn yfir fræðigreinina til skilningsauka áður en gerð verður grein fyrir meginefni ritgerðarinnar.
  Í 3. kafla verður farið yfir skilyrði þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta.
  Er kaflanum skipt upp með þeim hætti að fyrst verður fjallað um grunnskilyrði þess að bú
  skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta, þ.e. vikið er að hugtakinu „ógjaldfærni“. Í kjölfar
  þess verður umfjöllun kaflans skipt upp með þeim hætti að annars vegar verður fjallað um ósk
  skuldara sjálfs um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta og hins vegar þegar kröfuhafi
  skuldara fer fram á gjaldþrotaskipti.
  Í 4. kafla ritgerðarinnar verður að finna almenna umfjöllun um riftunarreglur XX. kafla laganna. Er í kaflanum vikið að eðli riftunarreglna gþl., skilyrði riftunar svo og helstu hugtök sem varða riftun á ráðstöfun þrotamanns.
  Í 5. kafla ritgerðarinnar verður riftunarreglu 134. gr. gþl. gerð ítarleg skil. Farið verður
  yfir þau tilvik sem skv. ákvæðinu heimla riftun, þ.e. að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri, þegar greitt er fyrr en eðlilegt getur talist eða greidd var fjárhæð sem skerðir
  greiðslugetu þrotamanns verulega. Verður gerð grein fyrir þeim hlutrænu skilyrðum sem
  þurfa að vera fyrir hendi svo heimilt sé að rifta ráðstöfun þrotamanns skv. ákvæðinu.
  Í 6. kafla ritgerðarinnar verður loks farið yfir riftunarreglu 141. gr. gþl. Verður gerð grein fyrir skilyrðum ákvæðisins, jafnt hlutrænum sem og huglægum skilyrðum þess. Þrátt fyrir að reglan kallist í daglegu tali almenna riftunarreglan hefur raunin verið sú að erfitt hefur verið að sýna fram á að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt, öfugt við það sem tíðkast hefur í danskri dómaframkvæmd.
  Í 7. kafla ritgerðarinnar verður gerð grein fyrir riftunarreglu 139. gr. gþl. er varðar riftanir á ráðstöfunum þrotamanns sem farið hafa fram eftir frestdag. Fjallað verður um skilyrði riftunar skv. ákvæðinu og þær undantekningar frá meginreglunni sem gilda um riftanleika ráðstafana er fram fara eftir frestdag. Einnig verður vikið að tengslum 139. gr. gþl. við 134. og 141. gr. laganna, s.s. um það hvort heimilt sé að beita framangreindum ákvæðum saman, eða hvort riftanir á ráðstöfunum sem fram fara eftir frestdag séu bundnar við
  riftunarreglu 139. gr. gþl.
  Í 8. kafla verður loks vikið að þeim meginreglum sem gilda um endurgreiðslu riftunarþola í kjölfar riftunar á ráðstöfun þrotamanns. Ekki verður um tæmandi umfjöllun að ræða, heldur er ætlunin að veita innsýn í þær reglur sem um endurgreiðslureglur gþl. gilda til fyllingar þeirri umfjöllun sem sett er fram í megin köflum ritgerðarinnar.
  Í þeirri umfjöllun sem sett er fram í 5., 6. og 7. kafla riftgerðarinnar verður tekið mið af skrifum íslenskra fræðimanna sem hafa fjallað um efni ritgerðarinnar. Jafnframt verður farið yfir þá grundvallar dóma sem fallið hafa um framangreindar riftunarreglur, auk þess verður gerð grein fyrir þeim dómum sem tengjast viðfangsefninu sem fallið hafa í Hæstarétti frá því 2001.
  Vegna tengsla gjaldþrotaskiptaréttarins við norrænan rétt, sér í lagi danskan rétt, verður ekki undan því skorist að líta til þeirrar framkvæmdar sem þar er að finna. En einnig
  verður tekið mið af skrifum þeirra norrænu fræðimanna sem hafa verið hvað atkvæðamestir á réttarsviðinu á undanförnum árum.

Samþykkt: 
 • 28.4.2010
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/4783


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA ritgerð 2010 final.pdf816.71 kBLokaðurHeildartextiPDF