Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47909
Aðgengi og tækifæri nemanda með áskoranir og fatlanir af ýmsu tagi til tónlistarnáms er rauður þráður í verkefninu og er leitast við að skoða bæði hvar tækifærin og vandamálin liggja. Fjallað verður um niðurstöður rannsókna á áhrifum tónlistar á þroska og andlega líðan, sjálfsöryggi og sjálfsmynd en jákvæð áhrif á þessa þætti, ásamt fleirum, er staðreynd. Einnig verður heilunargildi tónlistar tekið fyrir og færð verða rök fyrir því hvers vegna það sé mikilvægt að iðka tónlist. Stuðst verður við almenna hluta aðalnámsskrár tónlistarskóla sem segir að kennsluaðferðir skuli ekki mismuna nemendum og að koma verði til móts við nemendur með ólíkar þarfir. Niðurstöður ýmissa rannsókna á tónlistarskólum og tónlistarnámi verða einnig skoðaðar með áherslu á aðgengi, aðstöðu tónlistarskóla til að taka á móti nemendum með áskoranir og fatlanir og þær tillögur sem gerðar eru til að bæta stöðuna. Til að kynnast þessum raunveruleika betur tók höfundur tvö viðtöl við sérfræðinga á sviðinu en báðar eru þær músíkmeðferðarfræðingar og tónlistarkennarar að mennt, með mikla reynslu af tónlistarkennslu nemenda með áskoranir og fatlanir. Báðar gefa þær góða innsýn inn í tónlistarkennsluna, viðhorf til tónlistarnáms og námsframvindu og mikilvægi sýnileika svo eitthvað sé nefnt. Útfrá viðtölum höfundar og þeim þáttum sem skoðaðir voru er niðurstaðan því miður sú að í raun hafi ekki öll sama aðgengi og tækifæri til tónlistarnáms óháð fötlunum og áskorunum.
| Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
|---|---|---|---|---|---|
| Öll velkomin.pdf | 397,45 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |