Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47972
Í ritgerðinni er hvíti liturinn og mismunandi birtingarmyndir hans teknar til skoðunar, saga hans þrædd í grófum dráttum og notkun litarins í grafískri hönnun rannsökuð. Í fyrsta kaflanum er stiklað á stóru yfir sögu litatins og eru hellamálverk, líkamsmálning, tungldýrkanir og marmarastyttur á meðal helstu viðfangsefna. Í öðrum hluta fyrsta kafla koma við sögu kristin trú og hlutverk hvíta litarins sem myndlíkingar og andstæður gagnvart svörtum og einnig rauðum. Í kjölfarið er einnig litið til skjaldarmerkja, bókmennta, drauga og ekki síst klæðnaðar. Í síðasta hluta fyrsta kafla er kastljósinu beint að uppgötvunum Sir Isaac Newton á litrófinu, hugmyndir um hvítan húðlit, hvíttun efna og hreinlæti.
Í öðrum kafla ritgerðarinnar er hlutverk hvíta litarins í grafískri hönnun skoðuð sérstaklega. Þar er rýnt í hugmyndina um andrýmið og fjallað um mismunandi tegundir þess: virkt og óvirkt andrými svo og ör- og stór-andrými. Tekin eru dæmi um notkun á andrými í merkjum, svo eitthvað sé nefnt. Í þriðja hluta annars kafla er hvíti liturinn og notkun hans í merkjum fyrirtækja skoðuð sérstaklega og þar er komið aftur inn á hlutverk hvíta litarins í skjaldamerkjafræði þar sem hann vísar í silfraðan lit. Að þessu sögðu er óhætt að segja að ritgerðin fjalli í heild um þá merkingu sem hvíti liturinn hefur haft í vestrænu samhengi í gegnum tíðina, og hvernig og hvers vegna hann hefur verið notaður eins og hann hefur verið og svo hið sérstaka gildi hans í grafískri hönnun.
Hvíti liturinn er hvoru tveggja litur og táknmynd fyrir „allt það sem ekki er“. Þannig fær hann gildi sem til dæmis ráðandi litur á sjúkrahúsum og klæðum sem eiga að vera hrein. Þá er skjannahvítur litur merki um að hér sé „ekki neitt“: engin óhreinindi, enginn skítur, engar bakteríur og jafnvel „enginn litur“. Svona mætti lengi telja: enginn sviti, óþrifnaður eða synd. Þrátt fyrir þetta stóra hlutverk sem hvíti liturinn sinnir eimir enn eftir af vísunum hvíta litarins til silfurs, eins og hann birtist í skjaldamerkjafræðum fyrr á öldum. Sjá má þessa notkun á litnum í merkjum fyrirtækja og vara sem augljóslega tengja hvíta litinn frekar við eftirsóknarverðan málm heldur en „ekki neitt.“
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BrynjaSigurdardottir-BAritgerd-2023.pdf | 989,27 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |