Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47975
Rósir hafa heillað mannkynið í þúsundir ára og eru enn í dag svo vinsælar að þær eru eiginlega alls staðar – þær vaxa á umferðareyjum, fást á bensínstöðvum og sjást reglulega í alls kyns dægurmenningu. Merking rósarinnar er margslungin og áhrif hennar á menningu þjóða má sjá víða enda hefur saga hennar verið samofin mannkyninu frá fornöld í það minnsta. Rósir voru gríðarlega vinsælar meðal Forn-Grikkja og Rómverja og koma ítrekað fyrir í goðsögnum þeirra. Rósin kemur einnig verulega við sögu kirkjunnar og Englands svo eitthvað sé nefnt. Þegar táknræn notkun á rósum í dag er skoðuð kemur ýmislegt úr dægurmenningu nútímans upp, t.d. kvikmyndir á borð við Þyrnirós, Fríðu og Dýrið, American Beauty og auðvitað þættirnir The Bachelor þar sem rósin á að standa fyrir eitthvað allt annað en jurtaríkið eða rósaættina sem slíka. Þannig virðist rósin mjög gjarnan vera notuð – sem táknmynd um ýmislegt annað og fleira en plöntuna sjálfa.
Notkun rósarinnar í pólítík er af sama táknræna toga og má þá nefna nýtt merki Samfylkingarinnar sem Siggi Odds hannaði fyrr á árinu. Það merki er innblásið af öðru og eldra merki jafnaðarmanna þar sem rósin er einnig í forgrunni. Þá er áhugavert að skoða uppruna orðatiltækisins „að tala undir rós“ og komast að því af hverju enska heitið yfir talnabönd (e. rosary) þýðir rósagarður. Þegar allt kemur til alls er líklega óhætt að segja að rósin sé sú planta jurtaríkisins sem á sér hvað lengstu og viðamestu söguna þegar litið er til fjölþættrar notkunar hennar í menningu almennt og sjónrænnar eða táknrænnar birtingarmyndar hennar.
Í ritgerðinni er rýnt í merkingu rósarinnar í vestrænni menningu og staldrað við á nokkrum stöðum í sögunni til að rekja slóð rósarinnar og gildi hennar hverju sinni. Fjallað er um hvernig merking rósarinnar hefur breyst eða þróast í gegnum mismunandi tímabil sögunnar. Hver er uppruni þeirra fjölmörgu tákna og merkingarheima sem rósin stendur fyrir og hvernig birtist hún okkur í dag?
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Viltu_þiggja_þessa_ros?_Alma_Karen.pdf | 63.48 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |