Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/47978
Umfjöllunarefni þessarar ritgerðar er gjörningalist og helgiathafnir og fjölbreyttar birtingarmyndir þeirra í heimi fatahönnunar. Hugtökin tvö, gjörningur og helgiathöfn eiga það sameiginlegt að hafa með tíma, endurtekningu og ásetning að gera en það sem skilur þau að er helst samhengi og áherslur. Farið verður yfir sögu gjörningalistar, fjallað um listamenn á borð við Marinu Abramović og Techching Hsieh og verk þeirra skoðuð. Margir fatahönnuðir hafa notast við listformið gjörningalist í hönnun sinni og framsetningu á henni. Nokkur dæmi um gjörninga í fatahönnun verða tekin fyrir; tískusýningar Alexander McQueen vor/sumar 1999 og Coperni vor/sumar 2023, dansverkið Gravity Fatigue eftir Hussein Chalayan frá árinu 2015 og merkið Human Touch stofnað af Julet Seger. Fjallað verður um fyrrnefnd verk í samhengi við sögu gjörningalistar auk þess sem þau verða borin saman með tilliti til bæði gjörningalistar og helgiathafna. Fjallað verður um samband samfélagsmiðla og gjörninga á tískupöllunum auk þess sem breyttar áherslur tískusýninga verða skoðaðar. Gjörningar á tískupöllunum eru orðnir að tólum fyrir tískuhúsin til að notast við óhefðbundna framsetningu þar sem sjónarspilið sem verður til hentar sérstaklega vel í dreifingu á samfélagsmiðlum. Einnig verður fjallað um eigin tilraunir höfundar með gjörninga og endurteknar athafnir, og gildi þeirra tilrauna í vinnuferli og útkomu verkefna. Niðurstöður tilraunanna leiddu í ljós hvernig upplifun á athöfnum breytist eftir því sem þær eru framkvæmdar oftar, allt í kringum gjörninginn verður partur af athöfninni og áhorfendur spila þar sérstaklega stóran þátt. Endurtekning og nærvera áhorfenda hefur megináhrif á það hvort við skynjum eitthvað sem gjörning eða helgiathöfn.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Gjörningar og tíska.pdf | 28,64 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |