Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48067
Í þessari ritgerð verður hefðbundin íslensk þjóðlagatónlist skoðuð, uppruni hennar rakinn í stuttu máli og viðhorf í hennar garð sett í sögulegt samhengi. Viðhorf er hér lykilhugtak, en markmið ritgerðarinnar er að kanna af hverju sú þjóðlagatónlistarhefð sem mótaðist hér og lifði með landsmönnum nær óbreytt í mörg hundruð ár fjarlægðist okkur líkt og gerst hefur, því ekki er hún áberandi í íslensku tónlistar- og menningarlífi í nútímanum. Einnig verður þjóðlagatónlistarbylgjan á 7. og 8. áratugum seinustu aldar skoðuð, með því tilliti að þjóðlagatónlistararfur Íslendinga var ekki í forgrunni hjá þeim hljómsveitum sem upp úr bylgjunni spruttu. Leitað var í ritaðar heimildir um uppruna og tilurð tónlistarinnar, um aðstæður liðinna tíma, sem og aðrar rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar um svipað efni, og reynt að draga fram þau atriði sem höfundur taldi vera veigamest í þróun viðhorfsbreytinganna sem áttu sér stað. Auk þess voru tekin tvö viðtöl; annars vegar við Pétur Húna Björnsson, þjóð- og miðaldafræðing, og hins vegar Jón Árna Þórisson, tónlistarmann sem tók þátt í fyrrnefndri þjóðlagabylgju.
Helstu niðurstöður voru að á fyrri hluta 20. aldar átti sér stað menningarrof milli íslensks samfélags og þjóðlagatónlistararfsins. Í hinum miklu samfélagsbreytingum sem fóru af stað á seinni hluta 19. aldar varð tónlistin hluti af fortíðinni, því hún tilheyrði baðstofunni og bændasamfélaginu sem meginþorri Íslendinga vildi fjarlægjast og helst gleyma. Menningarrofið má rekja til viðhorfsþróunar sem hófst að mestu leyti á 19. öld, en um aldamótin 1800 fór að bera á því að fyrirmenni í samfélaginu vildu „bæta söngsmekk“ landsmanna. Sú skoðun að alþýðumenning Íslendinga sé smekklaus og eftirbátur annarra þjóða jókst með auknu menntunarstigi og bættum hag þjóðarinnar. Þegar komið var fram
yfir seinna stríð var þetta orðin fjarlæg og ókunn fortíð í hugum ungs fólks sem hreifst af þjóðlagatónlistarbylgjum bæði vestan hafs og austan.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Íslensk þjóðlagatónlist - Dauði og upprisa.pdf | 490.29 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |