Please use this identifier to cite or link to this item: https://hdl.handle.net/1946/48147
Í þessari ritgerð fjalla ég um sjónræna skynjun og tengslin sem við upplifum með fyrirbærunum í umhverfi okkar. Tilgangur ritgerðarinnar er að skoða þemu verka minna, sem eiga það öll sameiginlegt að gera tilraun til að varðveita og vinna með mörg brot af raunveruleikanum og mynda nýja heild. Söfnunin verður tekin fyrir, og ég mun reyna að svara því hvers vegna manneskjan heldur áfram að safna, þrátt fyrir ómöguleika þess að varðveita, þar sem allt rennur úr greipum okkar á einhverjum tímapunkti. Hugmyndir mínar og verk verða sett í samhengi við skrif fræðimanna og rithöfunda sem hafa haft áhrif á mig, þar á meðal Guðbjargar R. Jóhannesdóttur, Walter Benjamin, John Berger og Olga Tokarczuk. Ritgerðinni er skipt í þrjá hluta: „skrásetning og safnið sem efniviður“, „tengsl við umhverfið“ og „hluturinn sem fyrirbæri“. Ég byrja á að skoða ljósmyndina sem skrásetningartæki, í heimi þar sem er ofgnótt upplýsinga, og tengsl hennar við líf sem er í stöðugri breytingu. Næst fjalla ég um skynjunarástandið sem framkallar fagurferðilegar upplifanir í gegnum líkamlega skynjun og reynslu og styðst við fræðiskrif með fagurfræðilegar og fyrirbærafræðilegar áherslur. Ég velti fyrir mér afstöðu minni til skynjunar á hinu ægifagra og hinu hversdagslega. Þar ber ég saman vestrænar áherslur og japanska fagurfræði og heimssýn sem kallast wabi-sabi. Að lokum skoða ég hluti sem fyrirbæri með sjálfstæða tilveru og þýðingu þeirra: eru þeir ljóð, tákn, skilaboð? Niðurstaða ritgerðarinnar, eins og upplýsingarnar sem má finna í samskiptum við hluti í umhverfinu og minningar fortíðar, er úr heimi sjónrænnar skynjunar og er því handan orða. Tilgangur söfnunarinnar er sá að safna, því með tilraunum okkar til varðveislu sköpum við tilveru sem er full af fagurferðilegum upplifunum, hlýju í garð fortíðar, nútíðar og framtíðar og virðingu við umhverfið og fyrirbærin sem búa í því með okkur.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
BAritgerd_BAverkefni_KatrinJohannesdottir.pdf | 45,07 MB | Locked Until...2027/06/03 | Complete Text |