Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48214
Franska tónskáldið Lili Boulanger (1893-1918) átti stuttan feril við upphaf 20. aldar, en snemma á honum byrjaði að þróast persónulegur stíll, mótaður af samlöndum sínum á við Debussy og Fauré. Í fyrsta hluta er kórverkið Les Sirénes tekið fyrir, en þar er goðsagnaminni sírenanna dregið upp með pedalpunkti, ringulreið bjartra radda, og draumkenndu píanói. Annar hluti fjallar um einkenni píanóverksins D‘un vieux jardin; íhugul, ófyrirsjánleg tengsl hljóma, áreynslulausar leiðir laglínu þeirra á milli, og ýmis notkun tónskratta. Í þriðja hluta er sönglagið Reflets greint út frá samspili laglínu og hljóma við texta ljóðsins og symbólíska hugmyndafræði ljóðskáldsins. Megin efni ritgerðarinnar er túlkun höfundar á nótum og texta. Tónmál verkanna einkennist af yfirveguðum óstöðugleika sem heyrist í áreynslulausum tengingum fjarskyldra hljóma, litríkum hljómgerðum, og örum tóntegundaskiptum. Það má heyra áhrif impressionisma í áherslu tónlistarinnar á dulúðuga stemningu og samstíga hljóma. En Lili aðhylltist symbólisma og leiðir hennar til þess að spegla ljóðlínur og einstök orð í tónbilum og hljómum eykur vitsmunalega dýpt tónlistarinnar og gefur henni leitandi og ævintýralegan blæ, sem gerir framvinduna oft dularfulla og ófyrirsjáanlega. Einnig er ljósi varpað á táknrænar meiningar innan tónbila og framvindu hljóma út af fyrir sig. Þessi tónlistarlegu einkenni koma saman í æskuverkum tónskálds sem dó langt fyrir aldur fram en er enn vert að skoða meira en 100 árum eftir dauða hennar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA Ritgerð Arnaldur - Lili Boulanger.pdf | 2,48 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |