Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48225
Í þessari ritgerð er rýnt í brot úr þeirri menningu og sögu Bretlands sem snýr að tedrykkju. Rætt er um hvernig te festi rætur í Bretlandi og hvaða áhrif það hafði á menningu innan ákveðinna samfélagshópa með tilkomu tedrykkju síðdegis. En það er ekki hægt að skoða sögu tedrykkju án þess að minnast á tebollann og sögu hans. Hann á sér langa sögu í Bretlandi, sögu sem er mun lengri en saga tedrykkjarins þar í landi. Bollinn er hluti af upplifuninni af því að drekka te, tilfinningum sem því fylgja, og tengingu drykkjarins við breska menningu, hefðir og fagurfræði. Einnig verður farið inn á hönnun auglýsingaefnis tengdu drykknum, hvernig það getur mótað skoðanir fólks og upplifun á vöru með hjálp markaðssetningar.
Hefðin fyrir tedrykkju í Bretlandi er aðeins um þrjú hundruð ára gömul og má rekja til erlendra og stundum nokkuð óljósra áhrifa. Hins vegar má rekja sögu og hönnun tebollans í Bretlandi enn lengra aftur – og til þess að tebollinn þjóni sínum tilgangi á sem besta máta hefur form hans verið í þróun í gegnum aldirnar. Í seinni köflum ritgerðarinnar verður rýnt í sögu tebollans þar í landi, form, skreytingar og notkun. Ýmsir þættir hafa áhrif á upplifun
fólks á því að drekka te, hvort sem það sé góð hönnun á bolla eða auglýsingar sem eru markaðsettar í vissum tilgangi, fagurfræði tebollans eða persónulegur smekkur. Eða einfaldlega löngunin í að setja sjálfan sig í samhengi við breskt aðalsfólk, með því að upplifa hina eftirsóknarverðu þætti breska teboðsins líkt og breskur aðall hefur nú gert í um það bil þrjúhundruð ár.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Royal Tea = Royalty .pdf | 32,56 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |