Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4833
Þessi ritgerð er fræðilegur hluti meistaraverkefnis í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Ritgerðin skiptist í þrjá meginkafla auk undirkafla. Fjallað er um dagskrá og starfsemi Ríkisútvarpsins frá stofnun 1930 til ársins 1940. Leitast er við að svara þeirri spurningu hvort dagskráin á umræddu tímabili hafi endurspeglað hlutverk Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps. Kenningum og hugmyndum um almannaútvarp eru gerð skil og greint frá hlutverki þess sem miðils í þjónustu almennings. Almannaútvarp á að mennta, fræða og skemmta hlustendum, auk þess að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Greint er frá starfsemi Ríkisútvarpsins fyrsta áratuginn, sem einkenndist af mikilli elju þrátt fyrir fjárskort og bágborinn húsnæðiskost. Dagskrá Ríkisútvarpsins 1930-1940 er skoðuð í þaula, aðdragandi hennar og innihald. Í því skyni að rannsaka dagskrána var leitað fanga í óbirtum gögnum, skýrslum, greinargerðum og bréfum Ríkisútvarpsins sem er að finna í pappaöskjum á Þjóðskjalasafni Íslands. Önnur rannsóknargögn voru Dagskrá Ríkisútvarpsins 1930-1940, Útvarpsárbók Félags víðvarpsnotenda, Útvarpstíðindi auk ummæla um dagskrána í dagblöðum. Niðurstöður leiddu í ljós að Ríkisútvarpið gegndi fjöldamörgum hlutverkum þar sem gildi menntunar, fræðslu, skemmtunar og öryggis voru ríkjandi en í mismiklum mæli þó. Þannig endurspeglaði dagskráin þær skyldur sem ríkja um almannaútvarp.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Ritgerðin_-_heild.pdf | 599,46 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |