Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48360
Ritgerð þessi er lokaverkefni höfundar til B.Ed.-prófs í grunnskólakennslu með áherslu á samfélagsgreinar við Menntavísindasvið Háskóla Ísland. Viðfangsefni verkefnisins er kennsla erfiðrar sögu og leitast verður eftir því í byrjun verkefnisins að útskýra hvað felst í hugtakinu. Einnig verður litið til markmiða samfélagsgreinakennslu samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla (2013) og skoðað hvernig kennsla erfiðrar sögu fer fram og farið yfir góð ráð við kennsluna. Gerð var rannsókn og markmið hennar var að kanna hvað íslenskir grunnskólakennarar telji vera erfið saga og hvernig þeir fara að því að kenna hana. Eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt við gerð rannsóknarinnar. Fjögur einstaklingsviðtöl voru tekin við grunnskólakennara sem hafa reynslu á kennslu erfiðrar sögu. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að íslenskir grunnskólakennarar líta á erfiða sögu sem viðfangsefnið sem flestum kennurum finnst erfiðast að kenna, það sé efni sem inniheldur mikil átök, ofbeldi og dauða. Ásamt því voru niðurstöður þær að kennararnir fara ýmsar leiðir til að kenna erfiða sögu en að kennslan fari helst fram með umræðu- og spurnaraðferðum ásamt nemendamiðuðum kennsluaðferðum í verkefnavinnu nemenda. Niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi kennslu erfiðrar sögu þar sem að kennslan getur stuðlað að gagnrýnni hugsun nemenda ásamt því að nemendur læra að setja sig í spor annarra. En samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla (2013) er markmið samfélagsgreinakennslu meðal annars að efla gagnrýna hugsun nemenda og hæfni þeirra til að setja sig í spor annarra.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Skemman - yfirlýsing. KF.pdf | 79.06 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
Lokaverkefni. Kennsla á erfiðri sögu. KF.pdf | 594.33 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |