Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48507
Í þessari ritgerð er sjónum beint annars vegar að umhverfis- og loftslagsmálum og hins vegar að kynjajafnrétti. Meginviðfangsefni rannsóknarinnar eru viðhorf og hegðun karla og kvenna til umhverfismála og loftslagsbreytinga. Niðurstöður umhverfiskönnunar Gallup frá árinu 2022 eru skoðaðar og greindar með tilliti til þess hvort viðhorf og hegðun karla og kvenna á Íslandi til umhverfis- og loftslagsmála séu ólík. Kenningar umhverfisfemínisma voru notaðar til að varpa ljósi á þessa þætti og greiningin leiddi í ljós að kynjamunur er til staðar. Í framhaldi af því var sjónum beint að tveimur aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum, þ.e. skattaívilnunum og styrkjum til rafbílakaupa. Sú aðgerð sem sneri að skattaívilnunum til kaupa á vistvænum bílum var í gildi frá árinu 2012 til loka árs 2023. Þá tók við ný aðgerð sem gerir fólki kleift að sækja um styrki til rafbílakaupa til Orkusjóðs. Aðgerðirnar voru skoðaðar út frá kenningum Lesters M. Salamons um opinber stjórntæki og hugmyndafræði um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð til að varpa ljósi á hvort aðgerðirnar væru í takt við ólík viðhorf og hegðun kynjanna. Að lokum var skoðað hvort og þá að hvaða leyti kyn skiptir máli við ákvarðanatöku stjórnvalda. Niðurstöður ritgerðarinnar eru að konur og karlar á Íslandi hafa ólík viðhorf og hegða sér á ólíkan hátt gagnvart umhverfinu. Konur hafa að jafnaði umhverfisvænni viðhorf og eru viljugri til að breyta hegðun sinni umhverfinu í hag. Þær hafa jafnframt meiri áhyggjur af loftslagsbreytingum en karlar. Þegar skoðaðar voru tvær aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum kom í ljós að tekjuhærra fólk, sér í lagi karlar, nutu helst góðs af skattaívilnunum til kaupa á vistvænum bílum sem er í takt við kenningar um opinber stjórntæki. Ekki virðist hafa verið gert jafnréttismat á þeirri aðgerð áður en hún tók gildi né við síðari breytingar. Gert var mat á jafnréttisáhrifum nýju aðgerðarinnar, rafbílastyrkjum úr Orkusjóði. Gögn úr því jafnréttismati eru ekki aðgengileg en samkvæmt kenningum um opinber stjórnmál ætti sú aðgerð að stuðla að meiri jöfnuði en skattaívilnanir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Agnes_Þ_MPA_03_09_24.pdf | 1.76 MB | Lokaður til...26.10.2024 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing_Skemman.pdf | 332.01 kB | Lokaður | Yfirlýsing |