Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48509
Bakgrunnur: Með hækkandi aldri eykst tíðni krabbameins í barkakýli. Það er algengara meðal karla en kvenna og eru reykingar helsti áhættuþátturinn. Brottnám barkakýlis veldur oft langvinnum og síðbúnum einkennum eða aukaverkunum sem geta haft víðtæk áhrif á lífsgæði einstaklinganna. Tap verður á náttúrulegri, lífeðlisfræðilegri rödd sem krefst mikillar endurhæfingar. Fáar gæðarannsóknir hafa verið framkvæmdar um áhrif langvinnra og síðbúinna einkenna og eftirfylgni á lífsgæði þessara einstaklinga.
Markmið: Að samþætta þekkingu um langvinn og síðbúin einkenni og aukaverkanir eftir brottnám barkakýlis og áhrif brottnámsins á lífsgæði. Einnig að skoða áhrif hjúkrunarþjónustu á þessa þætti.
Aðferð: Kerfisbundin fræðileg samantekt megindlegra og eigindlegra rannsókna. Notuð var aðferð Joanna Briggs stofnunarinnar og PRISMA leiðbeiningar. Heimildaleit var framkvæmd í PubMed, Web of Science og CINAHL. Afturvirk snjóboltaleit var framkvæmd í samþykktum greinum. Við mat á veikleikum rannsókna var notast við gátlista frá JBI; MAStARI og QARI. Rannsóknargögn voru sett fram með skipulegum hætti með „matrix“ aðferð og lóðréttri samþættingu.
Niðurstöður: 32 greinar voru með í yfirlitinu, 31 var megindleg og ein rannsóknin var eigindleg. Sjúklingar í rannsóknum voru 2544. Þeir sem fóru í hlutabrottnám barkakýlis mátu almenn lífsgæði sín betri en þeir sem fóru í heildarbrottnám barkakýlis. Tilfinningavirkni, þreyta, svefnleysi, verkir, vandamál tengt tali, minni kynhvöt, breytt skyn, hósti og lystarleysi hafði mestu áhrifin á lífsgæði einstaklinganna. Þeir sem fengu talendurhæfingu og barka-vélindarödd lýstu marktækt betri lífsgæðum. Hjúkrunarstýrð þjónusta hafði jákvæð áhrif á ýmis lífsgæði sjúklinga m.a. vitræna- og félagslega virkni, þreytu og verki.
Ályktun: Niðurstöðurnar undirstrika þörf fyrir að bregðast við langvinnum og síðbúnum einkennum einstaklinga eftir brottnám barkakýlis. Ákjósanlegt væri að þróa hjúkrunarstýrða þjónustu, og þýða og staðfæra sértækan lífsgæðamatskvarða EORTC QLQ-H&N35 sem nýst gæti við meðferð.
Lykilorð: brottnám barkakýlis, lífsgæði, langvinn og síðbúin einkenni, íhlutanir, þjónustuþarfir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni MS sniðmát.pdf | 897.67 kB | Lokaður til...26.10.2024 | Heildartexti | ||
yfirlýsing 2 copy.pdf | 234.7 kB | Lokaður | Yfirlýsing |