Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4857
Inngangur: Fléttur eru hægvaxta lífverur sem myndast með samlífi á milli sveppa og ljóstillífandi græn- og/eða blágrænþörunga (blábaktería) en samlífið gerir fléttunum kleift að mynda efnasambönd sem eru einstök í náttúrunni. Sum þessara efnasambanda búa yfir eiginleikum sem menn hafa nýtt sér í áraraðir. Fjallagrös (l. Cetraria islandica) er fléttutegund sem hefur verið notuð í alþýðulækningum við ýmiss konar kvillum þ.á m. við særindum í hálsi, berklum, astma og magabólgum. Prótólichesterínsýra er talin vera eitt lífvirkasta annars stigs efnið sem finnst í fjallagrösum.
Samkvæmt niðurstöðum in vitro rannsókna á prótólichesterínsýru hefur hún hemjandi áhrif á vöxt ýmissa krabbameinsfrumulína auk þess að hemja DNA nýmyndun krabbameinsfrumna en hefur lítil áhrif á eðlilegar frumur.
Markmið: Að kanna áhrif prótólichesterínsýru á ensímið fitusýrusyntasa og á frymisnetsálag í krabbameinsfrumum.
Aðferðir: Virkni prótólichesterínsýru á fitusýrusyntasa var ákvörðuð með því að mæla tengingu malonyls-CoA við acetýl-coA sem er metin með því að mæla NADPH oxun með ljósmælingum. Áhrif prótólichesterínsýru á frymisnetsálag voru athuguð með western blettun þar sem athugað var hvort aukin fosfórun á eIF2α eigi sér stað en það bendir til frymisnetsálags.
Niðurstöður: Ekki tókst að sýna fram á að prótólichesterínsýra hindri fitusýrusyntasa. Niðurstöður úr western blettun sýna að prótólichesterínsýra veldur aukinni fosfórun á eIF2α í öllum krabbameinslínunum sem notaðar voru í rannsókninni.
Umræður og ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að frymisnetsálag eigi sér stað í frumum sem meðhöndlaðar eru með prótólichesterínsýru. Þar sem ekki tókst að sýna fram á að prótólichesterínsýra hindri fitusýrusyntasa með þeirri aðferð sem notast var við er ekki hægt að draga ályktanir um virkni prótólichesterínsýru á fitusýrusyntasa og er þörf á frekari rannsóknum í þeim efnum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Rigerðin.pdf | 1.24 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |