Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/4876
Bakgrunnur. Fjöldi sjúklinga sem fer í hjartastopp utan sjúkrahúsa og lifir af fer vaxandi. Engar leiðbeiningar hafa fundist við leit í alþjóðlegum gagnasöfnum um hjúkrun sjúklinga og aðstandenda þeirra eftir hjartastopp og endurlífgun. Í
bataferlinu fyrsta árið eftir hjartastopp hafa rannsóknir sýnt að sjúklingar fást við
hugræn, líkamleg og sálræn einkenni.
Tilgangur. Tilgangur verkefnisins er að afla þekkingar á einkennum og hjúkrunarmeðferðum sjúklinga sem lifað hafa af hjartastopp og aðstandendum þeirra með það að markmiði að setja fram drög að gagnreyndum leiðbeiningum
fyrir hjúkrun þessa sjúklingahóps.
Aðferð. Gerð var leit í fjórum gagnasöfnum að birtum rannsóknum frá árinu 1990 til 2009 um hugræn, líkamleg og sálræn einkenni sjúklinga sem lifað hafa af hjartastopp. Einnig var leitað að rannsóknum um aðstandendur sjúklinga, hjúkrunarmeðferðum og tillögum að hjúkrun bataferlinu. Rannsóknirnar voru settar fram í töflum, samþættar í fræðilegu yfirliti og gæði þeirra metin.
Niðurstöður. Alls voru samþættar 37 rannsóknir á hugrænum (23), líkamlegum (20) og sálrænum (20) einkennum, rannsóknum á aðstandendum (9) og
meðferðarrannsóknum (5). Almennt var útkoma sjúklinga talin góð en rannsóknir sýna einnig skerðingu á hugrænni, líkamlegri og sálrænni virkni. Hjúkrunarmeðferðir fyrir sjúklinga reyndust árangursríkar. Aðstandendur upplifa
einnig líkamleg og sálræn einkenni en einungis fundust tillögur að hjúkrun fyrir aðstandendur. Sett voru fram drög að gagnreyndum leiðbeiningum fyrir hjúkrun sem fela í sér mat, meðferð og eftirlit með sjúklingum og aðstandendum þeirra í
bataferlinu.
Ályktun. Hjúkrunarmeðferð sjúklinga sem lifað hafa af hjartastopp á að fela í sér eftirlit með hugrænum, líkamlegum og sálrænum einkennum í bataferlinu fyrsta árið. Mikilvægt er að aðstandendur séu hluti af slíkri meðferð. Hjúkrun sjúklinga og aðstandenda þeirra ætti að vera hluti af alhliða meðferð sem fylgir sjúklingum í gegnum samskipti þeirra við heilbrigðiskerfið
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Hjúkrun eftir hjartastopp og endurlífgun.pdf | 19.12 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |