Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48816
Ágrip
Hér eru rannsökuð sjö ólík íslensk verk. Hið elsta, Snjáskvæði, tilheyrir litlum flokki frásagnarkvæða, sagnakvæðum, sem urðu til frá 14. öld–17. aldar. Þrennar rímur um Snæ kóng eða Snjá konung eru frá 17. og 19. öld og þrjár þjóðsögur af skyldu efni voru skráðar um miðja 19. öld. Verkin hafa númerið AT/ATU 306 í AT/ATU-skránni yfir gerðir alþjóðlegra ævintýra og eiga því efnisþætti og minni sameiginleg með þjóðsögum og ævintýrum margra annarra þjóða. Meginviðfangsefnið hér er að bera saman hvað er líkt og hvað ólíkt með efnisþáttum og minnum verkanna sjö og varpa þannig nokkru ljósi á hvernig sagnaefnið barst milli höfunda og sagnaþula og tók breytingum í takt við menningarlegar aðstæður á Íslandi.
Verkin segja frá álfum. Þau teljast til flokksins Undraævintýri með yfirnáttúrulegum andstæðingi og í þeim flestum leggur vond stjúpa þau álög á stjúpbarn sitt að það skuli yfirgefa álfheima, taka á sig herkonungsgervi eða mynd mennskrar vinnukonu og ekki losna fyrr en einhver getur komist að því hver leynist á bak við þeirra falska skinn. Stjúpu- og álagaminnið hefur númerið M411.1.1. í minnaskrá Stiths Thompson og álfheimar í vatni F212.
Sagan um Snjá konung kemur fyrir í elsta verkinu og rímunum. Í persónunni Snjá leikur álfkona tveimur skjöldum, hún er grimmur herkóngur og blíð álfadrottning í senn. Hér er leikið með kyn sem kyngervi og þemað um einkenni og eðli kyns er því á vissan hátt til umræðu. Slíkar hugmyndir lifðu í alþýðusögum og skemmtunum, t.d. á vikivökum, og frá kirkjunnar og yfirvalda hendi var alltaf talsverð andstaða við þær. Á 18. öld jókst andstaðan enn og reynt var á ýmsan hátt að kveða niður sögur og kvæði um óbeislað eða fljótandi kyn þar sem þær gætu raskað röð og reglu í samfélaginu. Hvort sem þessu er um að kenna eða fleira kemur til þá er Snjár konungur/álfadrottning horfinn í þjóðsögunum þremur eða ummyndaður í stjórnsamri húsmóður eða í framúrskarandi vinnukonu.
Í yfirliti um rannsóknir á sagnakvæðum er m.a. rætt um Strengleika og möguleg áhrif franskra ljóðsagna, lais, á norrænar bókmenntir á 13. öld og síðar. Elsta uppskrift Snjáskvæðis er í vestfirskri bók, Kvæðabók Gissurar Sveinssonar frá árinu 1665 og rímurnar eru allar ortar af fólki sem bjó á Vesturlandi. Í þeim má sjá sísköpun efnisins eftir þekkingu skáldanna, viðhorfum og tíðaranda. Í þjóðsögunum hafa efnisþættir í AT/ATU 306 á sama hátt verið aðlagaðir íslensku umhverfi í sögum um jólagleði hjá álfum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Yfirlýsing_fyrir Skemmuna.pdf | 38,3 kB | Lokaður | Yfirlýsing | ||
MA_ritgerð AK.pdf | 604,85 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |