Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48869
Gagnreyndar heildrænar meðferðir og endurhæfing við ópíóíðafíkn: Kerfisbundin fræðileg samantekt með kögunarsniði
Ágrip
Bakgrunnur: Notkun ópíóíða hefur farið vaxandi, bæði hér á landi sem og á heimsvísu. Þessi þróun hefur leitt til aukinna heilsufarslegra vandamála og dauðsfalla tengd ópíóíðanotkun. Kallað er eftir aðgengilegum meðferðum og aukinni þjónustu fyrir alla sem þurfa.
Tilgangur: Að framkvæma fræðilega samantekt með kögunarsniði til að skoða stöðu þekkingar með tilliti til gagnreyndra heildrænna meðferða og endurhæfingar við ópíóíðafíkn.
Aðferðir: Fræðileg samantekt með kögunarsniði. Notast var við leiðbeiningar Joanna Briggs-stofnunarinnar, fimm þrepa kögunarsniðsramma Arksey og O‘Malley og PRISMA-ScR. Leitað var að greinum í gagnasöfnunum PubMed, Web of Science, PsycInfo og Cinahl. Greinarnar voru birtar á árunum 2018-2024 en einnig var tekin inn ein eldri grein sem fannst við skimun á heimildaskrá og var talin mikilvæg í þessa samantekt. Sett voru fram valviðmið sem greinarnar þurftu að standast og voru greinarnar metnar af þremur matsaðilum. Að því loknu voru greinarnar gæðametnar með mati frá Joanna Briggs-stofnuninni.
Niðurstöður: Upphafsleit skilaði 121 heimild. Eftir nákvæma greiningu uppfylltu tíu greinar, þar af níu rannsóknir og ein skýrsla með klínískum leiðbeiningum, inntökuskilyrði og voru settar upp í fylkingar og samþættar lárétt og lóðrétt. Niðurstöður sýna að æskilegt er að aðgengi að heildrænum meðferðum og endurhæfingu við ópíóíðafíkn standi til boða. Slíkar meðferðir þurfa að vera einstaklingsmiðaðar, með fjölbreyttum uppbótarlyfjameðferðum sem mæta þörfum mismunandi hópa notenda, og sálfélagslegum stuðningi. Rannsóknirnar sýna mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk á endurhæfingarmeðferðarstöðvum fái viðeigandi fræðslu og þjálfun við m.a. lyfjagjafir, styðjandi samtalsmeðferð og áhugahvetjandi samtal.
Ályktun: Mikilvægt er að þróa fjölbreyttar, gagnreyndar heildrænar meðferðir og endurhæfingu við ópíóíðafíkn til að takast á við þann skaða sem ómeðhöndluð ópíóíðanotkun getur falið í sér fyrir notendur og samfélagið. Sérstaklega er æskilegt að þróa aðgengilegar og heildrænar meðferðir og endurhæfingu fyrir þá hópa sem núverandi framboð meðferða hefur ekki gagnast. Við innleiðingu slíkra meðferða á Íslandi er mikilvægt að byggja á gagnreyndri þekkingu og reynslu í öðrum löndum. Æskilegt er að móta enn frekar hlutverk og ábyrgð hjúkrunarfræðinga hér á landi m.t.t. að veita heildrænar meðferðir og endurhæfingu við ópíóíðafíkn. Þörf er á frekari rannsóknum sem skoða hlutverk og viðfangsefni hjúkrunar í heildrænni meðferð og endurhæfingu við ópíóíðafíkn.
Lykilorð: Ópíóíðanotkun, gagnreyndar heildrænar meðferðir og endurhæfing við ópíóíðafíkn, hjúkrun, uppbótalyfjameðferðir, sálfélagslegur stuðningur.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni Snærún Ösp Guðmundsdóttir - lokaskjal (1).pdf | 1,09 MB | Lokaður til...07.01.2027 | Heildartexti | ||
Yfirlýsing um meðferð lokaverkefnis.pdf | 183,13 kB | Lokaður | Yfirlýsing |