Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/48965
Viðfangsefni þessarar MA ritgerðar er að skoða tengsl safna við innflytjendur og fólk á flótta, eða fólk af erlendum uppruna. Í samtímanum eru málefni þessara samfélagshópa ofarlega á baugi um heim allan og svo virðist sem velflestir hafi einhverja skoðun á tilvist og örlögum einstaklinganna. Fordóma gagnvart þessum samfélagshópum gætir víða sem skapar hættu á að einstaklingarnir upplifi andlega vanlíðan og skort á félagslegum tengslum. Fólksflutningar til Íslands eru tíðari nú en áður og samhliða því hefur skapast þörf fyrir að allir kimar samfélagsins aðlagist breyttri samfélagsgerð.
Fjallað verður um tilvist fólks af erlendum uppruna í samhengi við söfn, menningu og listir í hnattvæddum heimi sem samanstendur af fjölskrúðugum nútímasamfélögum sem einkennast í síauknum mæli af fjölmenningu. Verður það sett í samhengi við óvænt áhrifagildi lista og menningar, sem og safna, til þess að auka gagnger áhrif á félagslega samheldni, vellíðan og andlega heilsu.
Markmið ritgerðarinnar er að kanna hvert hlutverk safna er í íslensku samfélagi og hvernig starfsemi þeirra er háttað þegar kemur að því að mæta hópum fólks af erlendum uppruna. Rannsóknin er eigindleg þar sem tekin voru viðtöl við fulltrúa frá þremur söfnum á Íslandi: Listasafninu á Akureyri, Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni Íslands. Niðurstöðurnar voru greindar út frá fræðilegum grundvelli sem byggir á hugmyndum um atbeina safna til að efla félagslegt réttlæti og jöfnuð.
Rannsóknarniðurstöður sýndu fram á að söfnin eru meðvituð um áhrifastöðu sína í samfélaginu og þar af leiðandi mikilvægi þess að þau hugi að jaðarhópum. Auk þess sýndu niðurstöður fram á samræmi milli fræðilegrar orðræðu og þess hvernig söfnin haga starfsemi sinni til þess að taka utan um fólk af erlendum uppruna á Íslandi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Meistararitgerð-María Hjelm-10.01.25.pdf | 949,85 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna | |
Yfirlýsing_María Hjelm.pdf | 13,57 MB | Lokaður | Yfirlýsing |